26.6.2009 | 12:43
"Hver vegur að heiman er vegurinn heim"
Í dag rennur upp sú leiða stund, er ég verð að yfirgefa Akureyri og Eyjafjörð. Vænti þó skjótrar endurkomu. Frá byrjun mánaðarins hef ég dvalist í Davíðshúsi, en þar hafa skáld og fræðimenn aðstöðu. Fyrir það færi ég Akureyringum mínar bestu þakkir.
Það má ekki minna vera, en að ég þakki fyrir mig, með því að birta hér eitt af ljóðum Davíðs frá Fagraskógi, síðasta þjóðskálds Íslendinga. Maðurinn sjálfur var flókinnar gerðar, en ljóð hans, ýmist björt og hlý eða dimm og gustmikil, eiga það sameiginlegt, að þau eru ort á einföldu og fögru máli, sem nær beint til hjartans. Og eins og þar stendur; það sem kemur frá hjartanu nær til hjartans.
Ég birti hér ljóð Davíðs úr "Svörtum fjöðrum", "Stjörnurnar".
Stjörnurnar, sem við sjáum
sindra um himininn,
eru gleðitár guðs, sem hann felld,
er hann grét í fyrsta sinn.
- Honum fannst ekkert af öllu
yndi sér veita né ró
og allt vera hégómi og heimska
á himni, jörð og sjó. -
Svo var það á niðdimmri nóttu,
að niðri á jörð hann sá,
hvar fagnandi hin fyrsta móðir
frumburð sinn horfði á.
Og þá fór guð að gráta
af gleði; nú fann hann það
við ást hinnar ungu móður,
að allt var fullkomnað.
En gleðitár guðs, sem hann felldi,
er grét hann í fyrsta sinn,
eru stjörnurnar, sem við sjáum
sindra um himininn.
Flokkur: Menning og listir | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.