Raunir lífeyrissjóðsins í Kópavogi

Eitt af því, sem aðskilur okkur Íslendinga frá þróuðum samfélögum, er skilningur á lögum.  Annars staðar á Norðurlöndum, svo dæmi sé tekið, eru lög einfaldlega lög og ætlast er til, að menn fari eftir þeim.  Hér á landi hefur það lengi viðgengist, ef til vill allt frá upphafi Íslandsbyggðar, að lög séu einskonar viðmiðunarreglur, sem mönnum beri að halda sig við í meginatriðum og jafnvel eftir þörfum. Þessi hugsunarháttur er stór skýring á efnahagshruninu mikla í fyrra.  Það hrun var nefnilega aðeins birtingarmynd á siðferðilegu gjaldþroti þjóðar, sem kann ekki að haga sér eftir settum reglum, nema þegar henta þykir.

 

Málefni Lífeyrissjóðs starfsmanna Kópavogsbæjar eru talandi dæmi um þetta.

 

Samkvæmt reglum má lífeyrissjóður ekki lána sama aðilanum meira en 10% af útlánsfé sínu.  Sjóðstjórnin var hins vegar einhuga um, að víkja frá þeirri reglu, vegna þess, að hún taldi það henta sjóðnum.  Þess vegna lánaði hún Kópavogsbæ 20% af útlánsfé sínu.  Og það sem verra er, ef marka má orð Flosa Eiríkssonar fulltrúa Samfylkingarinnar í stjórn sjóðsins; þetta var gert í samráði við Fjármálaeftirlitið.

 

Allir vita, að ríkisstjórn Davíðs Oddssonar og Halldórs Ásgrímssonar dró tennurnar úr Fjármálaeftirlitinu.  Samfylkingin tók svo þátt í þeim hildarleik síðustu mánuði s.k. velmegunar.  Vitanlega ber Fjármálaeftirlitinu að fara að lögum, en ekki að veita undanþágur frá þeim. Til þess hefur það enga heimild.

 

Í ljósi þessara atburða, getur það tæpast talist tilviljun, að hvítflibbaglæpamennirnir gangi enn lausir.  Þeim er nákvæmlega sama um lög og rétt og almenningsálitið kemur þeim ekki við.  Sem dæmi um það má nefna, að hér norðan heiða, heyrði ég því fleygt, að þegar Reykvíkingar fögnuðu þjóðhátíðardeginum 17. júní, hafi Björgúlfur Thor Björgúlfsson flogið einkaþotu sinni yfir hátíðargesti, klukkan rúmlega 14.00, þegar hátíðin var í hámarki.  Hann hefði allt eins getað gefið út opinbera yfirlýsingu um, að Íslendingar séu skítapakk.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband