Hvar eru Þingholtin?

Í fréttum Ríkissjónvarpsins áðan, var sagt frá því, að fasteignamat mundi hækka á því svæði, sem fréttakonan kallaði "sunnanverð Þingholtin".  Um leið birtust myndir af Fjólugötunni og húsum enn sunnar.

 

Það er ekki ný bóla, að fjölmiðlafólk og fleiri teygi á Þingholtunum.  Á þessu hefur gengið undanfarin ár, nánar tiltekið, eftir að snobblið borgarinnar hélt, að það yrði eitthvað fínna í framan, við það, að búa þarna. 

 

Fyrir þá, sem ekki vita hvar Þingholtin eru, er vert að benda á Reykjavíkursögu Klemensar Jónssonar.  Mörk Þingholtanna liggja um Lækjargötu í vestri og Ingólfsstræti í austri, Hellusund í suðri og Bankastræti í norðri. 

 

Þingholtin, sem út af fyrir sig eru hluti Skólavörðuholts, sem áður hét Arnarhólsholt, bera nafn sitt af þinghúsi Seltjarneshrepps hins forna, en það stóð, þar sem nú er Skólastræti.  Á 19. öld var stundum talað um Efri- og Neðri-Þingholt.  Ingólfsstræti kallaðist Efri-Þingholt, allt þar fyrir vestan var Neðri-Þingholt.  Þessi skipting var almenningi þó ekki töm.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Hólmfríður Pétursdóttir

Það veitir ekki af að halda þessu á lofti.

Segir Klemens að Hellusund sé suðurmörk Þingholtanna?

Þegar ég var að alast upp í Skólavörðuholtinu, á Fjölnisveginum, héldum við að suðurmörkin lægju við Baldursgötu og austurmörkin um Óðinsgötu

Það er ómögulegt að kalla Skólavörðuholtið Þingholt eins og fasteignasalar virðast almennt gera.

Í eina tíð  þótti byggðin austan og sunnan Þingholtanna mun eftirsóttari en sú í Þingholtunum.

Hólmfríður Pétursdóttir, 12.6.2009 kl. 21:14

2 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Hvar er Vatnsmýrin? Er Reykjavíkurflugvöllur í Vatnsmýrinni? Er að rísa Háskóli í Vatnsmýri? Nei, aldeilis ekki. 70% flugvallarins er á Skildinganesmelum, og í Skerjafirði.

Ef austur-vestur-brautin yrði lengd og norðurendinn af N-S brautinni tekinn haf yrði ekkert af flugvellinum í Vatnsmýrinni.

Hvar er Reykjanes? Eru Vogarnir á Reykjanesi? Keilir? Trölladyngja?

Óekkí. Reykjanes er ysti hluti Reykjanesskagans.

Hvar er Seltjarnarnes? Aðeins fyrir vestan Kaplaskjól? Ónei, Seltjarnarnes nær inn að Eilliðaám og botni Fossvogs.

Ómar Ragnarsson, 12.6.2009 kl. 23:07

3 Smámynd: Guðjón Sigþór Jensson

Mjög þörf umræða.

Örnefnaruglingur er mjög bagalegur og oft hefur ofurlítil handvömm orðið að miklum misskilning. Þegar landmælingar dönsku herforingjanna um og uppúr aldamótunum 1900 voru stundaðar, þá varð þeim oft hált á svellinu hvar setja átti inn örnefnin. Stundum fluttu þeir örnefni til vegna vanþekkingar á staðháttum og hefur jafnvel valdið deilum.

Frægar eru athugasemdir Árna Magnússonar um erroribus, vitleysurnar sem vaða upp í heiminum:

Svo gengur það til í heiminum að sumir hjálpa erroribus á gang,og aðrir leitast síðan við að útryðja aptur þeim sömu erroribus. Hafa svo hverirtveggju nokkuð að iðja. - Sjá Handritaspjall eftir Jón Helgason prófessor í Kaupmannahöfn, bls. 113.

Heimurinn er fullur af vitleysum og vitleysingjum. Þeir hlusta ekkert á þó svo þeir séu margir sem vilja leggja sig fram að leiðrétta. Þegar vitleysa er einu sinni komin af stað, þá er ekki létt verk að færa aftur til rétts vegar. Nýlegt dæmi er norðaustur hverfi Reykjavíkur. Eftir 1982 var hafið að byggja íbúðahverfi norðanvert við Grafarvoginn. Síðan var haldið áfram að byggja inn með Sundunum í átt til Mosfellssveitar. Allt þetta hverfi er ímunni margra Grafarvogshverfi þó svo ekki nema lítillhluti þess beri það nafn réttilega.

Kunnur sagnfræðingur og örnefnafræðingur, Guðlaugur R. Guðmundsson lagði til á sínum tíma að hverfið norðan við Grafarvogshverfið yrði nefnt Sundabyggð eða eitthvað í þá áttina. Að fornu var lengi rætt um Sundin, þ.e. strandlengjuna inn af Viðey og allt inn að Leirvogi. Því miður var þessari ábendingu ekki sinnt.

Ómar: Seltjarnarneshreppur náði allt suður að Kópavogslæk og austur fyrir Sandskeið. Um miðjan 4ða áratug síðustu aldar urðu óvenjuhörð málaferli milli Mosfellshrepps og Seltjarnarneshrepps um lögsögu yfir bæjunum Hólmi og Gunnarshólma sem var úr landi Hólms, Elliðiðakots og Vilborgarkots. Afi Sigurðar Heiðars blaðamanns, Björn hreppsstjóri í Grafarholti varð alveg miður sín og talaði um mikið ranglæti í Hæstarétti út af þessu máli.

Þegar minnst er á fasteignir og fasteignasala þá er furðuleg meinloka þegar þeir auglýsa um misjafnvel staðsett hús. Hús eru yfirleitt alltaf á sama stað og telst fremur til undantekninga að þau séu flutt milli staða enda þarf töluverðra tilfæringa og fyrirhafnar til. Samt sem áður þá virðast hús vera sífellt á ferð og flugi eins og bílar, flugvélar og skip. Orðið staðsetning og orð þeim skyld tengist þeim eiginleika að um breytilega staðsetningu geti verið um að ræða í stað og rúmi.

Kannski að ábending gamla handritasafnarans eigi við fleira en þegar hann reif í sundur lélegar afskriftir af sama textanum og varð tilefni að athugasemd hans um vitleysurnar. Þingholtin hafa fasteignasalar teygt og togað langt út og suður, öllum þeim sem vilja hafa hlutina í góðu lagi til armæðu og leiðinda.

Mosi 

Guðjón Sigþór Jensson, 13.6.2009 kl. 12:04

4 identicon

Og hvar er Reykjavík? Líka uppi á Kjalarnesi? Mér virðist í seinni tíð að svo sé.

Hlynur Þór Magnússon (IP-tala skráð) 13.6.2009 kl. 13:01

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband