28.5.2009 | 22:02
Ríkisstjórn á villigötum?
Búsáhaldabyltingin beindist ekki gegn einstaklingum heldur spillingu. Þetta mættu ráðherrar núverandi ríkisstjórnar hafa hugfast. Yfirlýsing Jóhönnu Sigurðardóttur um það, að enginn starfsmaður ríkisins skyldi hafa hærri laun en ráðherrar, var tekin alvarlega af þjóðinni. Forstjóri Landspítalans virðist ekki hafa skilið þetta. Hann sendir þjóðinni og forsætisráðherra einfaldlega langt nef, með því að lýsa því yfir, í sambandi við hlálega ráðningu Einars Karls Haraldssonar sem upplýsingafulltrúa Landspítalans, að slík yfirlýsing hafi aldrei borist sér. Þarf að mata það með teskeið ofan í embættismenn ríkisins, að nú eru nýir tímar?
Meðan Samfylkingin kaus að gegna þjónustuhlutverki í síðustu ríkisstjórn Sjálfstæðismanna var Einar Karl aðstoðarmaður Össurar Skarphéðinssonar. Engan þarf að undra, að Össur, með sinn þriðjung atkvæða í prófkjöri síns eigin flokks, reyni að lappa upp á Einar Karl og koma honum í notalega stöðu. Það er nú eitt sinn þannig, að svo berast tónar úr flautu, sem í hana er blásið. En nú vill svo til, að téður Össur er ekki yfirmaður forstjóra Landspítalans, heldur Ögmundur Jónasson heilbrigðisráðherra og formaður B.S.R.B. Ég verð að játa, að kynni mín af honum eru betri en svo, að ég hefði trúað þessari glópsku upp á hann.
Greinilegt er, að hér um hrossakaup að ræða. En ráðaherrar Samfylkingarinnar skyldu minnast þess, að flokkur þeirra og meira að segja sumir þeirra í eigin persónu, var afhrópaður á Austurvelli í vetur leið. Ögmundur Jónasson og aðrir ráðherrar Vinstri grænna skyldu minnast hins sama, áður en ónotaleg hljóð berast þeim til eyrna gegnum rúðugler Alþingishússins.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Þarfur pistill. Takk!
Hlédís, 28.5.2009 kl. 23:00
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.