27.5.2009 | 20:13
Hver vinnur hjá hverjum?
Allir stjórnmálaflokkar eiga sér lítil sæt lukkutröll, sem þeir láta fara eins vel um og kostur er. Oftast eru þau dúðuð inn í mjúk störf á vegum almennings, hvort heldur er ríkis eða sveitarfélaga. Þess er þá jafnan gætt, að vinnan sé hófleg en launin þar í móti lítt skorin við nögl.
Nú hefur Einar Karl Haraldsson verið ráðinn sem eins konar upplýsingafulltrúi Landspítalans. Starfið var ekki auglýst laust til umsóknar og ekki er alveg ljóst, í hverju það er fólgið.
Að þessu tilefni ræddi fréttastofa Ríkissjónvarpsins við þá mætu konu, sem gegnir stöðu forstjóra Landspítalans, nú í fréttum klukkan 19.00. Þegar fréttamaður spurði forstjórann um laun Einars Karls, var svarið stutt og laggott:Ég ræði aldrei laun starfsmanna minna opinberlega".
Ekki er vitað til þess, að blessuð konan sé eigandi Landspítalans; hún er einfaldlega starfsmaður hans, rétt eins og ræstingarkonur, læknar og annað starfsfólk spítalans. Sama gildir um Einar Karl Haraldsson. Launamál hans eru því ekki einkamál, heldur mál almennings; eiganda Landspítalans.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.