23.5.2009 | 22:10
Altarisbríkin á Möðruvöllum í Eyjafirði
Undarleg þótti mér sú frétt, sem barst í vikunni, að eigendur hins forna höfuðbóls, Möðruvalla í Eyjafirði, hygðust selja til útlanda altarisbrík, sem fylgt hefur kirkjunni þar á staðnum allar götur frá 15. öld.
Kirkjan á Möðruvöllum er að vísu bændakirkja og því í eigu jarðeiganda. Kirkjan sjálf er friðuð, en einhverra hluta vegna láðist viðeigandi yfirvöldum, að friða kirkjugripina, þ.á.m. altarisbríkina.
Nú er það svo, að hugtakið eign er flóknara en margur hyggur. Í tilfelli sem þessu, er eign í raun aðeins varðveisluskylda. Menn selja einfaldlega ekki þjóðardýrgripi, enda eru þeir í raun eign þjóðarinnar, eins þótt einhver einstaklingur sé skráður fyrir þeim. Sama á við um ættargripi. Engum siðuðum manni kæmi til hugar, að láta ættargrip ganga úr ætt sinni. Slíka gripi eiga menn ekki í almennri merkingu þess orðs, heldur varðveita þá handa komandi kynslóðum.
Allt bendir til, að nú verði gripið til viðeigandi ráðstafana varðandi altarisbríkina á Möðruvöllum. Víst er það gott, en þó leitt, að til þess þyrfti að koma.
Flokkur: Menning og listir | Facebook
Athugasemdir
Dýrgripir eru víða í Eyjafjarðarsveit.
Grundarkirkja sem Magnús á Grund reysti fyrir rúmri öld er í eigu hvers ?
Þegar dánarbú eru gerð upp, er að minni bestu vitund ekki gert verðmat á kirkjum, þótt bændakirkja sé, heldur dásamað af þeim er hafði þann rausnarskap og fjárræði að byggja Guðshús. Nú sýnist mér verða breytt hugsunarferli þeirra er telja sig "eiga " þessar bændakirkjur.
Gott væri að rifja upp hvað það opinbera hefur lagt til viðhalds og varðveislu þessara kirkjubygginga. ekki ætla ég að gera það hér, en mín hugsun er. Margur verður að aurum api.
Hólmgeir (IP-tala skráð) 24.5.2009 kl. 00:03
Ef maðurinn á kirkjuna með öllu innvolsi hlýtur hann að ráða því hvort og hvernig hann ráðstafar eigum sínum. Spurning er að fá verð á draslið og bjóða svo ríkinu, þjóðminjasafninu eða þjóðkirkjunni að kaupa á því verði. Ekki er hægt að neyða manninn til að eiga áfram eitthvert gamalt drasl sem hann hefur ekkert nema kostnað af. Í þessu sambandi má velta fyrir hve mikið þjóðminjasafnið skuldar eigendum þeirra gripa sem nefnt safn hefur stolið gegnum tíðina en það vita allir sem vilja vita að þjóðminjasafnið hefur farið ránshendi um dýrgripi í eigu kirkna og landsmanna undanfarna öld eða svo. Þjóðminjasafnið hefur talið sig eiga allt sem máli skiptir í sambandi við fornmuni hver svo sem átti þá áður í raun. Mér finnst að maðurinn megi selja þetta afgamla drasl og þá þjóðminjasafn, ríkið eða þjóðkirkjan ganga inn í kaupin ef það er eitthvert sáluhjálparatriði að halda þessu dóti til haga með tilheyrandi kostnaði á meðan almenningur lepur dauðann úr skel.
corvus corax, 24.5.2009 kl. 16:31
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.