17.5.2009 | 22:51
Jónas Hallgrímsson - ævimynd
Fyrir skömmu barst mér í hendur bók eftir Böðvar Guðmundsson rithöfund og nefnist hún Jónas Hallgrímsson - ævimynd. Hún kom út árið 2007 og var tilefnið vitanlega 200 ára afmæli listaskáldsins góða.
Því miður var þetta ágæta rit aðeins gefið út til dreifingar í skólum. Nokkur eintök hafa þó ratað í hillur bókabúðar Bjarna Harðarsonar á Selfossi og er það vel.
Árið 1993 gaf bókmenntafélagið Hringskuggar, en á þess vegum starfaði ég, út bókina Um Jónas eftir Matthías Jóhannessen skáld. Þeir Böðvar og Matthías nálgast Jónas á ólíkan hátt; annað hvort væri nú.
Sjálfsmynd hverrar þjóðar er dregin með pensli draumsins; ekki veruleikans. Jónas Hallgrímsson á fleiri liti og stærri fleti í þeim hluta íslenskrar sjálfsmyndar, sem talist getur sæmilega óbrenglaður.
Bók Matthíasar fór því miður ekki víða og ekki treysti ég skólakerfinu fyrir riti Böðvars. En svo er Guði fyrir að þakka, að enn eigum við almenningsbókasöfn. Ég hvet fólk til að leita þessara bóka þar. Menn verða ekki sviknir af lestrinum.
Flokkur: Menning og listir | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.