Erindi flutt í kvöld á bókasafni Hveragerðis

  Á miklum umbrotatímum geta það orðið örlög þjóða og einstaklinga, að hið stærsta verður ekki greint frá því smærsta. Þannig fór Bandaríkjamönnum eftir síðari heimstyrjöldina, gagnvart skáldinu Ezra Pound og sömu örlög biðu Norðmanna varðandi Knut Hamsun, höfuðskáldi sínu á 20. öldinni og raunar dulítið lengur.

         

Báðir þessir listamenn sviku föðurland sitt, hvor á sinn hátt.  Hér verður ekki rakið, hvað leiddi þá á götur fasismans, enda er þess ekki kostur í stuttu máli.  En eftir að sú helstefna hafði beðið skipbrot á vígvöllum síðari heimsstyrjaldarinnar, voru báir þessir menn handteknir fyrir landráð.

         

En nú brá svo við, að líkt og Bandaríkjamenn þorðu ekki almennilega í Ezra Pound, þá veigruðu Norðmenn sér við að ganga milli bols og höfuðs á Knut Hamsun.  Báðir voru þessir andans jöfrar því einfaldlega úrskurðaðir geðveikir og sem slíkum haldið um sinn á stofnunum fyrir slíka sjúklinga, uns þeim var sleppt lausum til að gleymast, hvað hvorugur þeirra raunar gerði.

         

Sú er náttúra spurninga, að  vekja ekki svör, heldur aðra spurn.  Og nú er spurt;  getur þjóðfélag, sem með réttu eða röngu telur sig svikið af einstökum mönnum, sem snilli sinnar vegna hafa notið virðingar, komið sér undan uppgjöri við þá, ef út af ber í sambúð manns og þjóðar, með því að úrskurða þá geðveika? 

         

Nú verður hver að svara fyrir sig.  En svo mikið er víst, að geðveikin hrjáði hvorki Ezra Pound né Knut Hamsun.  Báðir nýttu þeir einfaldlega hæfni sína í þjónustu afla, sem áttu í stríði við föðurland þeirra.

         

Lýðræði gegn einræði?  Það má velta því fyrir sér, hvort slík spurning teljist ekki einföldun í þessu samhengi.  Og ein spurning vekur aðra, eins og fyrr segir:  Geta lýðræðissamfélög, sem átt hafa í stríði við einsræðisöfl, úrskurðað menn úr eigin röðum ófæra til refsingar sökum geðveiki? Eiga ekki jafnt þeir sjálfir, sem og fórnarlömb þeirra, sem þeir styðja, lýðræðislega kröfu á almennum réttarhöldum og viðeigandi dómi?       

         

Svo vill til, að það er ekki aðeins frænda okkar Norðmanna og Bandaríkjamanna, að velta þessu fyrir sér.  Á helstu umróta- og hörmungartímum síðustu aldar áttum við Íslendingar sjálfir tvo merka rithöfunda, sem aðhylltust hvor sína helstefnuna.  Gunnar Gunnarson hneigðist að fasisma og Halldór Laxnes laut kommúnisma í fölskvalausri aðdáun.  Reyndar lenti hvorugur þeirra í þeirri aðstöðu, að þurfa að vega og meta, hvort heldur bæri að meta hærra, hollustuna  við eigin þjóð eða erlendar ofbeldisstefnur.  Kannske var það líka eins gott, allra hluta vegna.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Hlakka til að sjá þig... stutt í það!  Bið að heilsa konunni og Lilla ;)

Elín (IP-tala skráð) 15.5.2009 kl. 13:50

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband