1.5.2009 | 15:55
1. maí
Í dag er alþjóða baráttudagur verkalýðsins, 1. mai. Baráttudag þennan má rekja vestur til Chicagoborgar, en þar urðu götuóeirðir sem kostuðu fjölda menns lífið, bæði verkamenn og lögreglumenn, þann 4. mai árið 1886. Tilefni óeirðanna var kröfuganga, þar sem verkafólk krafðist átta stunda vinnudags.
Í framhaldi þessa skrifaði einn af forystumönnum bandarískra verkamanna þingi Annars alþjóðasambandsins, sem haldið var í París árið 1889 og hvatti til þess, að krafan um átta stunda vinnudag yrði sett fram samdægurs um allan heim. Var þetta samþykkt og ákveðið, að kröfugöngur skyldu fara fram 1. mai árið eftir, þ.e.a.s. 1890. Síðan hefur þessi dagur, 1. mai verið alþjóðlegur baráttudagur verkalýðsins.
Reyndar má rekja hátíðarhöld þennan dag aftur í gráa forneskju, þar sem þetta var alþýðlegur vorfagnaðardagur, svipaður sumardeginum fyrsta hjá okkur. Vísast í því sambandi í bók Árna Björnssonar, Saga daganna.
Baráttudagur verkalýðsins, 1. mai, hefur fyrir löngu skipað sér sess í heimsmenningunni, auk þess að vera snar þáttur í menningu hverrar þjóðar fyrir sig. Flestir láta pólitískar skoðanir víkja þennan dag. Þó er því ekki að neita, að nokkuð dró úr baráttugleði verkafólks meðan auðhyggjuæðið var í algleymingi og sáust þess merki í minnkandi þátttöku á þessum baráttudegi. Vonandi heyrir sú deyfð nú sögunni til.
Það er til marks um þátt 1. mai í menningarlífi landsmanna, að Morgunblaðið, sem hingað til hefur fremur hallað sér að hagsmunagæslu fyrir atvinnurekendur en verkafólk, fagnaði þó jafnan 1. mai. Í ritstjóratíð Matthíasar Johannessen og Styrmis Gunnarssonar var vandað til umfjöllunar um málefni verkalýðsins þennan dag.
En nú er öldin önnur. Í Morgunblaðinu í dag er ekki minnst einu orði á 1. mai. Hins vegar er veist að verkafólki á forsíðunni með fjögurra dálka frétt, um misnotkun á atvinnuleysisbótum og tækifærið meira að segja notað, til að kynda undir útlendingahatur í því sambandi. Með fréttinni birtist svo mynd, af ónefndum Framsóknarmanni, sem flokkur hans kom á sínum tíma fyrir sem yfirmanni Vinnumálastofnunar. Má því ætla, að hann sér sá viskubrunnur, sem Mogginn ausi úr í fréttinni.
Vissulega er því ekki að neita, að til eru þeir, sem misnota atvinnuleysisbætur. En það er afleiðing þess atvinnuleysis, sem gróðahyggja frjálshyggjunnar gat af sér. Þess mætti Mogginn minnast. Inni í blaðinu er svo dæmigerð kontóristagrein eftir forseta A.S.Í. Þar er ekki minnst einu orði á 1. mai, enda dagurinn sjálfsagt ekki sérlaga hugleikinn hagfræðingum
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 16:01 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.