29.4.2009 | 21:49
Hljóðvarpsfréttir á íslensku!
Í fréttatíma Ríkisútvarpsins (hljóðvarps) kl. 18.00 í kvöld, var þess getið, að Obama Bandaríkjaforseti hefur setið að völdum í 100 daga. Það er svo sem í lagi að geta þess, þótt tæpast geti tilefnið talist stórvægilegt. Hitt vakti furðu mína, að með þessari frétt var rætt við bandaríska konu, sem vitanlega talaði á ensku. Að vísu voru orð hennar þýdd. Eftir sem áður hefði mér þótt nægja, að vitna í orð konunnar. Fréttatími íslenskra útvarpsstöðva (hljóðvarps) á vitanlega eingöngu að vera á íslensku, þó svo öðru máli gegni um sjónvarpsstöðvar.
Skammt er síðan fréttastöðvar Ríkisútvarps, hljóðvarps og sjónvarps voru sameinaðar. Það er skaði, ef fréttamenn Ríkisútvarpsins gera sér ekki ljóst, að ekki gilda sömu reglur um féttaflutning í þessum tveimur ólíku miðlum og á þetta ekki hvað síst við um notkun tungumála. Rökin fyrir því, að hægt sé að skjóta inn í sjónvarpsfréttir viðtölum og ræðubútum á hvaða tungumáli, sem vera skal, eru vitanlega þau, að þar er hægt að texta. Umrædd útvarpsfrétt hefði því sómt sér vel í sjónvarpinu, enda var hún svo flutt þar u.þ.b. klukkustund síðar.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Ósammála
Sigurður Þorsteinsson, 29.4.2009 kl. 23:54
Verst er samt þegar er þýtt ofan í þann sem talar svo maður hvorki heyrir almennilega það sem sagt er eða þýðinguna.
Héðinn Björnsson, 30.4.2009 kl. 16:09
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.