19.4.2009 | 17:50
Hvað á maður að kjósa?
Mér hefur þótt stöðugt erfiðara að kjósa, eftir því sem árin líða. Þó er ég ekki orðinn bitur með aldrinum; spilling flokkakerfisins er bara alltaf að verða augljósari. Nú hafa þrjár deildir í Fjórflokknum orðið uppvísar af því, að þiggja milljónir króna, já jafnvel tugi milljóna frá vægast sagt vafasömum fyrirtækjum. Fá fyrirtækin ekkerrt fyrir sinn snúð? Því trúa fáir. Mér finnst það ekki sérlega merkilegt val, að kjósa á milli mútuflokka.
En hvað um Vinstri græna? Nei, ég hef ekki gleymt því, að formaður þeirra, Steingrímur J. samþykkti á sínum tíma eftirlaunafrumvarp þingmanna með viðeigandi forréttindum. Og þegar blaðamenn vildu ná af honum tali af þessu tilefni, flúði hann til fjalla. Síðan kalla ég hann Fjalla-Grímsa. Vinstri grænir hefðu fyrir löngu átt að losa sig við hann.
Nú veit ég, að einhver spyr, hvort ég sé svo vandlátur, að geta þá ekki bara kosið Frjálslynda flokkinn eða smáframboðin. Já, ég er of vandlátur til þess. Frjálslyndi flokkurinn er í raun klofinn í frumeindir sínar og gagnslaus sem slíkur.
Sennilega hefði unga fólkið í Borgarahreyfingunni fengið atkvæði mitt, ef það hefði ekki otað fram gömlum tækifærissinna úr Framsóknarflokknum. Og á Ástþór Magnússon og hans pot er ekki orðum eyðandi. Ég sé því ekki fram á annað, en ég skili auðu á laugardaginn.
Sem ég var að skrifa þesa grein, hringdi dyrabjallan. Ég fór til dyra. Þar stóð ung og blómleg stúlka frá Samfylkingunni og færði mér fallega rauða rós. Þetta var ósköp fallega gert af blessaðri hnátunni. En rósi var afskorin. Og hún mun skjótt fölna. Fyrir nokkrum árum fékk ég græðling hjá sama flokki. Einnig þá stóðu kosningar yfir dyrum. Nú er þessi græðlingur orðinn að bærilega stóru tré úti í garði.
En því miður, ég er jafnaðarmaður og því festir Samfylkingin ekki rætur í hjarta mér.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Sæll Pjetur og takk fyrir þessa hugleiðingu.
Mig langaði bara til að koma á framfæri örlítilli athugasemd vegna þess umtals sem ég heyri stundum haft um Þráinn Bertelsson.
Ég hef rætt mikið við Þráinn og er ánægður með hans aðkomu að Borgarahreyfingunni. Ég er algerlega sannfærður um að hann ber hag lýðræðisins fyrir brjósti og það eru jú okkar helstu baráttumál hjá Borgarahreyfingunni.
Þráinn hélt tryggði við Framsóknar flokkinn lengur en ég fæ sjálfur skilið þar sem að mér hefur alltaf líkað afar illa við flokkinn þann, en sagði sig loks formlega úr honum þegar að formaður þess flokks lýsti yfir stuðningi flokksins við Íraks stríðið gegn vilja meirihlutans þar skilst mér.
Þegar að Framsóknarflokkurinn steig fram og lýsti yfir algerri tiltekt og nýjum gildum innan flokksins, lét Þráinn því miður glepjast, væntanlega vegna eldri tilfinninga til flokksins. Þráinn sagði sig hins vegar samstundis úr þeim flokki aftur þegar í ljós kom þar yrði ekki af opnu prófkjöri. Þráinn er heitur stuðningsmaður lýðræðis og ég votta það hér með.
Autt er dautt atkvæði - X við O er augljóslega besti kosturinn í stöðunni
Baldvin Jónsson, 19.4.2009 kl. 18:18
Skil ekkert í fólki sem gengur í hús og gefur dauð blóm!!
En eitthvert gagn hefur þú samt haft af græðlingnum sem þú fékkst fyrr, þar var þó verið að gefa eitthvað lifandi. Rósir eru afskornar og því deyjandi þegar þær eru gefnar.
Mitt X er enn í lausu lofti (næstum því). Hef ekkert heyrt hvernig á að meðhöndla auða kjörseðla. Þeir eru jú ekki ógildir, en hverjum teljast þeir...... sjöunda framboðinu? Þessum óánægðu sem nenntu á kjörstað?
Sverrir Einarsson, 19.4.2009 kl. 20:41
Ég er einn af þeim sem ætla að kjósa Borgarahreyfinguna og í 9 sæti á lista í
Suðurkjördæmi. Mín skoðun er sú að það sé verðugt að gefa hreyfingunni atkvæði sitt.Þetta eru grunngildi sem þar eru í framboði og þarna er auðvitað mikið af venjulegu fólki.Það er kostur því það veitir stjórnmálastéttinni aðhald.Flórflokkurinn er orðin svo góðu vanir og svo samdauna spillingunni, þannig fannst þeim öllum frambjóðendum flórflokksins sjálfsagt að hið opinbera greiddi ferðakostnað þeirra á framboðsfund á Akureyri af því þeir væru ´´opinberir ´´ starfsmenn.Auðvitað kolólöglegt en engin kveikti á perunni af því það sem ´´fína´´ fólkið gerir hlýtur að vera löglegt ( sic ).
Einar Guðjónsson (IP-tala skráð) 19.4.2009 kl. 22:09
Ég er búinn að spá mikið í það hvað ég eigi nú að kjósa.
Er gamall Sjálfstæðisflokksmaður sem hef ávallt kosið flokkinn. Niðurstaðan er sú að það verður ekki aftur.
Ég ætla að veðja á Borgarahreyfinguna X - O.
Af hverju ætla ég að kjósa Borgarahreyfinguna.
Nú eru að koma kosningar og því er ágætt að líta yfir farinn veg og skoða af hverju hér hrundi allt og hver ástæðan er fyrir því.
Þegar þjóð er með sjálfstæða mynt eins og við íslendingar þá er mikilvægt að halda vöruskiptajöfnuði í kringum núllið.
Það er hægt að segja að krónan sé rétt skráð gagnvart öðrum gjaldmiðlum þegar verðmæti vöru og þjónustu sem verið er að flytja inn sé jafnt og verðmæti þeirrar vöru og þjónustu sem við erum að selja til útlanda. Þá er viðskiptajöfnuður í jafnvægi og gengið rétt skráð.
Það er alger nauðsyn að halda þessum vöruskiptum í jafnvægi til þess að forðast að ekki myndist verðbólga og þensla.
Til að glöggva sig á því hvernig vöruskiptajöfnuður hefur verið undanfarin ár er hægt að skoða tölur frá Seðlabankanum. Við skulum taka tölur frá 2004 og til 2008 þegar hrunið varð.
Vöruskiptajöfnuður í milljónum kr.
2003 -16.932,40
2004 -37.787,00
2005 -94.539,50
2006 -158.461,50
2007 -90.058,90
2008 -5.575
Samtals -403.354,30
Við sjáum að strax árið 2003 er vöruskiptajöfnuður kominn í mínus sextán milljarða. Ástæðan fyrir þessu má líklega rekja til byggingar Kárahnjúkavirkjunar sem hófst 2003. Kárahnjúkavirkjun átti að kosta tæplega 100 milljarða og álverið sennilega svipað.
Þenslutímabilið hér hefst semsagt 2003
Verðbólga á Íslandi mældist um 1,5 % 2003 sem var vel innan við verðbólgumarkmið Seðlabankans sem er 2,5 %
Stór hluti af kostnaði við byggingu bæði virkjunarinnar og álversins kom ekki inn í hagkerfið hér. Það var vegna þess að mikið af starfsfólki sem vann þessi verk var erlent og erlend verktakafyrirtæki greiddi þeim laun.
Samt sem áður verður svona stórt verkefni til þess að auka þenslu og skapa ójöfnuð í vöruskiptum.
Það hefði þurft að hafa mikið aðhald á fjármálastjórninni vegna þessarar innspýtingar sem varð vegna Kárahnjúkavirkjunar og álversins en hvað var gert ?
Framsóknarflokkurinn lofaði því að hækka húsnæðislán í 90 % af fasteignamati íbúða.
Árið 2002 höfðu Landsbankinn og Búnaðarbankinn verið einkavæddir og óhætt er að segja að þeir sem fengu bankana voru handvaldir af þeim stjórnmálaflokkum sem þá voru við stjórn það er að segja Sjálfstæðisflokki og Framsóknarflokki
Nýju einkavæddu bankarnir vildu ná til sín húsnæðismarkaðinum og yfirbuðu Íbúðarlánasjóð þannig að þeir buðu 100 % lán á íbúðir.
Svona mikil lán vegna íbúðakaupa hafa aldrei þekkst á Íslandi og í raun fór allt hér á hvolf í framhaldinu.
Neyslan byrjaði að aukast strax 2004 þegar fólk sem átti íbúðir með lágu veði gat veðsett íbúðirnar hærra og notað þá fjármuni til þess að kaupa neysluvarning.
Sveitafélög notfærðu sér strax þetta auðvelda aðgengi fólks að fjármagni og lóðaverð hækkaði nærri fjórfalt á stuttu tímabili.
Strax árið 2004 var þenslan byrjuð og verðbólgan jókst. Seðlabankinn fór að hækka stýrivextina til þess að reyna að slá á þensluna og lækka verðbólguna.
Vöruskiptahallinn 2004 varð um 37 milljarðar. Strax þarna átti stjórnin að sjá að það varð að slá á þensluna með öllum ráðum, en hvað var gert ?
Tekjuskattshlutfallið var lækkað og stýrivextirnir hækkaðir en hvað gerðist þá ?
Þegar tekjuskatturinn er lækkaður hefur það í för með sér að þenslan eykst og það var alveg öfugt við það sem þjóðfélagið þurfti. Það hefði þurft að hækka skatta til að minka þenslu en í staðinn voru skattar lækkaðir.
Meiri og alvarlegri mistök voru hinsvegar í því að hækka stýrivexti til þess að slá á þenslu. Sú aðgerð hafði alveg öfug áhrif. Þegar vextir á íslenskum krónum hækkuðu notfærðu erlendar fjármálastofnanir sér vaxtamuninn og fóru að gefa út jöklabréf í stórum stíl.
Þannig streymdi gjaldeyrir inn í landið vegna útgáfu jöklabréfa sem bankarnir tóku við. Bankarnir skiptu á gjaldeyrinum og krónum við Seðlabankann og lánuðu íslendingum sem aldrei fyrr húsnæðislán, bílalán eða önnur neyslulán.
Þar sem bankarnir gátu lánað gengislán og íbúðarlánasjóður lánar verðtryggð lán þá hafði stýrivaxtahækkun Seðlabankans lítil sem engin áhrif. Í raun hafði stýrivaxtahækkunin alltaf öfug áhrif. Eftir því sem vextirnir hækkuðu kom meiri gjaldeyrir inn í landið í formi jöklabréfa.
Árið 2005 var vöruskiptahallinn um 94 milljarðar og öllum ætti að vera ljóst að ráðin sem Seðlabankinn var að beita dugðu alls ekki og höfðu raunar þensluhvetjandi áhrif.
Ríkisstjórnin og Seðlabankinn ásamt Fjármálaeftirlitinu og öðrum eftirlitsstofnunum virðast hafa verið alveg blindir og ekki séð neitt hvað var að gerast þótt það blasti við þegar tölur um vöruskiptajöfnuð voru skoðaðar 2005
Seðlabankinn varð að nota gjaldeyrinn sem hann fékk frá bönkunum sem þeir aftur fengu vegna jöklabréfanna til þess að borga niður viðskiptahallann.
Þannig myndaðist mikið ójafnvægi í gjaldeyrisstöðu landsins. Útlendingar áttu orðið hundruð milljarða í krónubréfum á Íslandi og gjaldeyririnn hafði verði notaður til þess að borga viðskiptahalla sem myndaðist vegna lána sem bankarnir dældu út á markaðinn.
Það mætti halda að Seðlabankinn hafi haldið að það þyrfti aldrei að borga þennan gjaldeyri til baka.
Í staðinn fyrir að hætta þessari fáránlegu stýrivaxtahækkun til þess að minnka verðbólgu og þenslu þá voru vextir enn hækkaðir 2006.
Vöruskiptahalli 2006 varð um 158 milljarðar. Inn í landið dældist gjaldeyrir vegna jöklabréfa sem varð síðan notaður til þess að greiða niður vöruskiptahallann.
Það var engin glóra í fjármálastjórninni og með ólíkindum að ekki hafi verið gripið til róttækra aðgerða.
Seðlabankinn hefur öflugt tæki til þess að slá á þenslu. Þetta tæki nefnist gjaldeyrisjöfnuður en því hefur ekki verið beitt.
Í 13 grein laga um Seðlabankann frá 2001 segir
13. gr.
Seðlabanka Íslands er heimilt að setja lánastofnunum reglur um gjaldeyrisjöfnuð. Í slíkum jöfnuði skal auk gengisbundinna eigna og skulda telja skuldbindingar og kröfur sem tengdar eru erlendum gjaldmiðlum utan efnahags, svo sem framvirka samninga og valréttarsamninga.
Að áliti Gunnars Tómassonar hagfræðings hefði verið hægt að beita 13 greininni þannig.
1. Jákvæður gjaldeyrisjöfnuður bankanna þýðir að erlendar eignir þeirra eru umfram erlendar skuldir þannig að bankarnir gætu, ef svo bæri undir, selt gjaldeyri til Seðlabanka Íslands í skiptum fyrir krónur til nota í innlendum lánaviðskiptum.
2. Ef gjaldeyrisjöfnuður bankanna er í jafnvægi - erlendar skuldir jafnar erlendum eignum - þá er erlend staða þeirra hlutlaus að því er varðar umfang innlendra lánaviðskipta þeirra.
3. Neikvæður gjaldeyrisjöfnuður bankanna er hins vegar til marks um það að bankarnir hafa fjármagnað samsvarandi hluta af innlendum lánaviðskiptum sínum með gjaldeyrissölu til Seðlabanka Íslands.
4. Regla sem kveður á um að gjaldeyrisjöfnuður skuli ekki vera neikvæður kemur þannig í veg fyrir að bankarnir noti nettó erlendar lántökur til að fjármagna innlend lánaviðskipti.
5. Varðandi gengisbundnar eignir og skuldir segir 13. gr. einungis að taka skal tillit til þeirra við reglusetningu um gjaldeyrisjöfnuð - t.d. gæti reglan verið sú að gengisbundnar eignir skuli ekki flokkast undir erlendar eignir bankanna.
6. Í hagtölum SÍ eru gengisbundnar eignir réttilega flokkaðar undir innlendum en ekki erlendum eignum.
7. Skv. hagtölum SÍ námu erlendar eignir innlánsstofnana alls 4.778 milljörðum í árslok 2007 en erlendar skuldir námu alls 6.224 milljörðum - nettó erlend eignastaða var því neikvæð um 1.448 milljarða.
8. Í septemberlok 2008 voru samsvarandi tölur 7.475 milljarðar og 10.317 milljarðar - og nettó erlenda eignastaðan því neikvæð um 2.842 milljarða.
9. Gengisbundnar (innlendar) eignir innlánsstofnana voru 1.558 milljarðar í árslok 2007 og 2.963 milljarðar í septemberlok 2008.
10. Að (ranglega) meðtöldum gengisbundnum (innlendum) eignum þeirra var gjaldeyrisjöfnuður innlánsstofnana jákvæður um 110 milljarða í árslok 2007 og um 121 milljarð í septemberlok 2008.
11. Ef SÍ hefði sett þá reglu að gjaldeyrisjöfnuður innlánsstofnana skyldi ætíð vera í jafnvægi eða jákvæður, þá hefðu innlend lánaumsvif þeirra verið a.m.k. 1.448 milljörðum minni í árslok 2007 og 2.842 milljörðum minni í lok september 2008.
12. Með því að setja slíka reglu hefði SÍ því dregið verulega úr bæði erlendri skuldsetningu og innlendri útlánaþenslu innlánsstofnana.
Einhverra hluta vegna kaus SÍ að beita ekki heimild sinni í 13 gr. Seðlabankalaga til að setja slíka reglu og væri gaman að fá svar frá Seðlabankanum hversvegna það var ekki gert.
Stjórnendur bæði ríkisstjórnarinnar og Seðlabankans geta ekki falið sig bakvið það að hafa ekki haft tæki til þess að bremsa af hagkerfið. Það hefði verið hægt að hækka skatta og beita gjaldeyrisjöfnuði en hvorugt var gert.
Einnig hefðu stjórnvöld átt að breyta lagasetningu og setja lög sem gátu hindrað þá miklu þenslu sem varð hér undanfarin ár ef reglan um gjaldeyrisjöfnuð hefði ekki dugað.
Ofan á allt það sem er upptalið þá leyfðu stjórnvöld bankakerfinu að stækka þannig að fjármálakerfið varð tólf sinnum stærra en þjóðarframleiðsla Íslands. Stærðin sem varð á íslenska bankakerfinu var einsdæmi í heiminum.
Það sorglega við allt sem gerðist hér er að hægt hefði verið að afstýra hruninu. Það var í raun löngu fyrirséð að hér mundi allt fara á þá leið sem raunin varð. Það sást við að skoða hvernig vöruskiptajöfnuður stighækkaði og skuldir bankanna jukust ár frá ári. Samt var ekkert gert til þess að sporna við þessu og bremsa bankanna og þensluna af.
Niðurstaðan af þessari skoðun er að hér fór allt úr böndunum vegna fáránlega lélegrar fjármálastjórnunar. Það hefði vel verið hægt að afstýra þessu hruni ef hér hefði verið ábyrg fjármálastjórn sem hefði strax tekið fast á þenslunni þegar hún fór að myndast uppúr 2005
Samkvæmt könnunum ætlar á milli 20 og 30 % kjósenda að kjósa Sjálfstæðisflokkinn í næstu kosningum. Af hverju fólk ætlar að gera það er óskyljanlegt ef afrek undanfarinna ára eru skoðuð. Það má með sanni segja að óvitar hafi farið með efnahagsmálin á Íslandi undanfarin ár.
Samfylkingin var við stjórn landsins í um eitt og hálft ár á undan hruninu og á líka sinn þátt í því hvernig fór.
Til að gæta sanngirni skal það tekið fram að Vinstri Grænir vöruðu alla tíð við því hvert stefndi en á þá var ekki hlustað.
Þar sem ég er ekki hrifin af öfgunum í umhverfisáherslum Vinstri Grænna ætla ég ekki að kjósa þá.
Þá er í raun bara einn flokkur eftir og það er Borgarahreyfingin. Er ekki kominn tími til þess að gefa nýju fólki tækifæri á að spreyta sig. Það er allavega ekki hægt að stjórna verr en gert hefur verið undanfarin ár.
Eggert. (IP-tala skráð) 19.4.2009 kl. 23:22
Voðalegt er að heyra þetta Pjetur minn. Bara í stoende vandræder. Mér finndist nú miklu nær að sitja heima en að skila auðu. Þá verður þú ekki vændur um að hafa laumast til að kjósa eitthvað sem þú vilt ekki. Gamla lumman um að lýðræðið krefjist þess af fólki að fara á kjörstað er bara þvæla. Einu raunhæfu mótmælin eru að hundsa kosningarnar. Ég hyggst þó alls ekki gera það og geng galvaskur að kjörborðinu og er ekki í nokkrum vafa um hvað ég kýs. Kærar kveðjur til ykkar Ingibjargar og Ólafs.
Sigurður Sveinsson, 20.4.2009 kl. 07:59
Ég mæli með að fólk kjósi og striki út. Að strika út atkvæði í atkvæði, því það styður líka persónukjör.
Héðinn Björnsson, 22.4.2009 kl. 15:16
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.