11.4.2009 | 10:41
Sápustykki stjórnmálanna
Þegar svartur blettur fellur á hugsjónir manna, er ævinlega gripið til sama sápustykkisins, nefnilega einstaklinga. Þeim er rennt eftir óhreinindunum í þeirri von, að þar með hverfi allur skítur af hinum göfugu" hugsjónum og þær standi hreinar eftir. Óhreinindin sitja þá eftir á sápustykkinu, en það er einfaldlega fært úr augsýn fólks.
Þannig reyndu kommúnístar að nota Stalín forðum tíð; allar vammir og skammir rauðliða voru honum, og honum einum að kenna. Eins gerðu Bandaríkjamenn við Nixon eftir Watergatehneykslið. Og nú freista sjálfstæðismenn þess, að gera það sama við Geir Haarde og Guðlaug Þór.
Vissulega voru þeir Stalín og Nixon hinir verstu skúrkar, hvor á sinn hátt. En þeir hefðu aldrei komist til valda, nema vegna þess, að þeir bjuggu við samfélagskerfi, sem fleytti þeim áfram. Eins er með Geir Haarde og Guðlaug Þór. Það getur vel verið, að þeir beri höfuðábyrgðina á fjárveitingum FL-Group og Landsbankans til Sjálfstæðisflokksins. En þeir gerðu það þá vegna þess, að flokkurinn er eins og hann er, en ekki þrátt fyrir það.
Menn skyldu heldur ekki gleyma því, að Sjálfstæðisflokkurinn, jafn spilltur og hann virðist óneitanlega vera, er hluti að stærri heild, þ.e.a.s. íslensku flokkakerfi.
Menn spyrja eðalilega, hvort FL-Group og Landsbandkinn hafi ekki einfaldlega borið fé á Sjálfstæðisflokkinn til að liðka til, sér í hag, varðandi ákvarðanir opinberra fulltrúa flokksins í stjórnkerfinu. Hér á ég vitanlega við orkumálin og fyrirhugaða einkavæðingu á því sviði í borgarstjóratíð Vilhjálms Þ. Vilhjálmssonar.
Og ein spurning vekur aðra. Hafa erlend stóriðjufyrirtæki og orkurisar, borið fé á íslenska stjórnmálamenn og eða flokka? Og hvað um íslenska sérfræðinga í orku- og stóriðjumálum? Vitað er, að slík fyrirtæki hafa orðið uppvís af mútustarfsemi úti um allan heim. Er það, í ljósi síðustu atburða, ekki bara barnaskapur, að ímynda sér, að þessu sé á annan veg háttað hér á landi?
Framkoma Framsóknarmenna síðustu daga er með ólíkindum. éir upplýsa, að hafa þegið yfir 30 milljórir króna framlög árið 2006, en neita að segja hvaðan það fé sé komið. Var þarna ef til vill ekki um gjafir að ræða, heldur greiðslu fyrir greiðasemi? Um það er allt á huldu. En hitt er víst, að nú þarf að velta við mörgum steinum og víða í stjórnmálakerfi þjóðarinnar og huga að, hvað undir þeim leynist. Það er affarasælla, en að renna sápustykki yfir einstaka bletti á flík, á hverri tæpast sést í hreinan blett.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Sennilega hefur Nói - Síríus ekki borgað eggin í dag, heldur "lagt þau til" sem er auðvitað allt annað í bókhaldi heldur en "styrkur".
Ég spyr mig hvar er "styrkur" FLokksins þegar búið er að skila "styrknum".
Sverrir Einarsson, 11.4.2009 kl. 21:32
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.