6.4.2009 | 23:12
Þjóðin á grænni grein
Með öðru eyranu hlustaði ég á argaþras stjórnmálamanna í sjón-varpinu í kvöld. Ég held að þeir hafi verið úr Norðvesturkjördæmi; allt úrvalsfólk. Hugmyndir þess voru hreint frábærar. Að vísu varpaði það nokkrum skugga á viðræður þessa sómafólks, að á því mátti heyra, að það væri ekki sammála um neitt, nema það, að vera ósammála. En þannig eru stjórnmálin; hanaslagur án sýnilegs tilgangs.
Sá ágæti maður, Jaroslav Hasek, höfundur Góða dátans Sveiks, stofnaði eitt sinn stjórnmálaflokk, sem bauð fram í borgar-stjórnarkosningum í Prag. Ég er ekki frá því, að þetta hafi verið á því herrans ári 1908. Þessi ágæti flokkur fékk víst lítið fylgi, en kjörorð hans var: Við erum eini flokkurinn, sem mótmælt höfum jarð-skjálftunum í Mexíkó árið 1903. Má vera, að mig misminni varðandi ártalið og biðst þá velvirðingar á því. En aldrei, í samanlagðri stjórn-málasögu mannkyns, hefur nokkur flokkur manna komið fram með skýrari og frumlegri stefnu. Ég ráðlegg íslenskum stjórnmálaflokkum að taka sér þetta til fyrirmyndar. Að vísu er nokkuð seint í rassinn gripið, að mótmæla umræddum jarðskjálftum í Mexíkó. En það væri reyndandi, að mótmæla rigningunni í Bergen þann 23. september árið 2004.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.