5.4.2009 | 11:56
Færa þarf skipan dómara til Alþingis
Því miður er nú nokkurn veginn útséð um, að stjórnlagaþing verði haldið, nema þá í skötulíki. Þingflokkarnir virðast sammála um, að það skuli annað hvort komið í veg fyrir slíkt þinghald eða að það skuli a.m.k. fyrirfram tryggt, að slík almannasamkoma verði marklaus. Eigi að síður leyfist mönnum allra náðasamlegast að láta sig dreyma um réttlátara þjóðfélag.
Eitt af því, sem nauðsynlegt er að breyta, ekki aðeins réttlætisins vegna, heldur einnig af praktískum" ástæðum, er skipan dómara. Eins og málum er nú háttað, eru þeir skipaðir af dómsmálaráðherra, þ.e.a.s. fulltrúa framkvæmdavaldsins. En hlutverk dómara er að bregðast við grunsemdum, réttmætum eða óréttmætum eftir atvikum, um brot á lögum. Verk þeirra eru m.ö.o. unnin út frá ákvörðunum löggjafavaldsins, þ.e. Alþingis. Því er eðlilegt, að dómarar séu skipaðir af þingheimi, en ekki ráðherra.
Til að koma í veg fyrir pólitíska misbeitingu Alþingis á þessu skip-unarvaldi, eða a.m.k. draga úr hættunni á henni, mætti svo kveða á um úrskurðarvald lagadeildar Háskóla Íslands, varðandi hæfni um-sækjenda.
Rökin fyrir því, að lagadeild Háskóla Íslands yrði falið slíkt verkefni en ekki lagadeild Háskóla Reykjavíkur eða annarra einkarekinna lagadeilda, felast í því, að dómaarastörf eru opinber. Einkaaðilar eiga því hvergi að koma nálægt skipun dómara.
Þetta er eitt af fjölmörgum atriðum sem stjórnlagaþing þyrfti að ræða. En það verður ekki gert, ef stjórnlagaþingmenn eiga að vinna þingstörf sín í viðvikum frá daglegu brauðstriti.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Algjörlega sammála þér. Auk þess hafa skipanir dómara undanfarin ár verið umdeild svo ekki sé meira sagt. Dómarar eiga og verða að vera hafnir yfir allan vafa um hlutdrægni. Það er grundvöllur og ekki veitir af í þeirri siðspillingu sem ríkt hefur í íslensku þjóðfélagi undanfarin ár.
Ingibjörg Hinriksdóttir, 5.4.2009 kl. 19:59
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.