30.3.2009 | 11:59
Kynslóðaskipti - hvað með það?
Á vissan hátt má segja að kynslóðaskipti hafi orðið í forystuliði beggja þeirra stjórnmálaflokka, sem héldu landsfund um helgina. 68-kynslóðin lagði upp laupana í Samfylkingunni og eldri dama tók við formennsku flokksins. Og veitti ekki af. Í Sjálfstæðisflokknum var hins vegar yngt upp í formannssætinu og fer Sjallinn nú mikinn af því tilefni.
En hefur það í sjálfu sér gildi, að yngja upp í forystuliði flokks? Ég dreg það stórlega í efa. Það eru viðhorf stjórnmálamanna, sem máli skipta; ekki aldur þeirra. Þannig var það ungt fólk, sem leiddi frjálshyggjuna til sigurs í Sjálfstæðisflokknum fyrir aldarfjórungi eða svo. En stefnan var gömul og úr sér gengin. Hana már rekja aftur til heimsvaldastefnu Breta á 19. öld og raunar enn lengra til baka á spjöldum sögunnar.
Lýðræðishugmyndir nútímans hýsa tæpast ættarveldi miðalda. Við skulum því vona, að hinn nýi og ungi formaður Sjálfstæðisflokksins sé yngri í anda, en þær hugmyndir, sem fleytt hafa honum til forystu.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.