23.3.2009 | 10:27
Frjálshyggja; draumur og veruleiki
Í silfrinu sínu á laugardaginn, ræddi Egill Helgason við ungan frjálshyggjumann, sem taldi það af og frá, að frjálshyggjunni væri um að kenna, hvernig komið er efnahagsmálum þjóðarinnar. Rökin voru þessi: Í hundrað ár hafa frjálshyggjumenn barist gegn ríkisábyrgð á atvinnulífi, þar með töldum fjármálarekstri. Þess vegna viljum við ekki, að ríkið beri ábyrgð á bönkunum; það eiga eigendur þeirra að gera einir.
En fá þessi rök hins unga frjálshyggjmanns staðist? Tæpast. Hver mundi leggja fé sitt inn á banka, sem ekki nyti ríkisábyrgðar? Varla margir. Og er það ekki harla ljóst, að fari banki á hausinn, fara innistæðueigendur hans sömu leið?
Því má heldur ekki gleyma, að í 18 ár réðu s.k. frjálshyggjumenn, þ.e.a.s. auðhyggjumenn þessu landi. Reynslan sýnir, að þeir gerðu allt, sem í mannlegum mætti stóð, til að tryggja stöðu auðmannanna, sem áttu bankana. Frjálshyggjuöfl Sjálfstæðisflokksins voru höfuðstoð pilsfaldakapitalismans á Íslandi. Það er frjálshyggjan í verki, hvernig svo sem hún er í draumaheimi frjálshyggjumanna.
Draumar eru ágætir til síns brúks. En þeim lýkur, sé augunum lokið upp.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Ágætur pistill hjá þér.
Ég er þér sammála. Maðurinn var að verja hugmyndafræði sem greinilega gengur ekki upp - svona svipað og Efnavopna-Alí í Írak sem sagðist vera að vinna stríðið þótt menn og byggingar féllu hvarvetna í kringum hann. Þetta var fáránlegur málflutningur. Áróðursmaskínan er komin á fullan snúning, það er greinilegt. Ég get sagt þér að ég varð mjög reiður þegar ég hlustaði á þetta bull í manninum.
Frjálshyggjan var hönnuð fyrir sérhagsmuni og fól í sér enga samfélagslega eða umhverfisfræðilega ábyrgð. Í því var fall hennar falið.
Eiríkur Sjóberg, 23.3.2009 kl. 10:58
Það er ekki rétt hjá þér, að banki þurfi að njóta ríkisábyrgðar, til að geta starfað sem slíkur. Sá banki, sem ekki nýtur slíkrar ábyrgðar, verður einfaldlega að setja sér strangari eigin- og lausafjárreglur en annars. Þannig gæti hann verið óhræddur við áhlaup. Ég sé ekki hvaða útópía slíkt fyrirkomulag væri.
Þú ert semsagt annað hvort fylgjandi ríkisábyrgð, eða mótfallinn bankastarfsemi yfir höfuð?
Og þetta með sjálfstæðismennina: Sjálfstæðisflokkurinn hefur aldrei verið frjálshyggjuflokkur. Að kenna þann flokk við frjálshyggju er útópía vinstri manna. Hann hefur staðið fyrir mestu útþenslu hins opinbera í sögu Íslands. Hann hefur aukið tekjur ríkissjóðs, þannig að árið 2007 námu þær 2/3 af vergri landsframleiðslu.
Hér hefur ríkt hið svokallaða blandaða hagkerfi og í ofanálag versta samsetningin af öllum; pilsfaldakapítalismi þar sem menn hafa getað tekið áhættu fyrir hönd skattgreiðenda. Það verður aldrei kallað frjálshyggja, hvað sem menn segja.
Reason, 23.3.2009 kl. 11:20
Í draum sérhvers manns er fall hans falið.........sagði mjög svo mætur maður.
Og hafði rétt fyrir sér, sem endra nær.
Sverrir Einarsson, 23.3.2009 kl. 13:59
Síðan hvenær varð frjálshyggja að auðhyggju? Annað hvort ertu vísvitandi að rugla saman hugtökum eða veist ekki betur. Frjálshyggja hafnar ríkisábyrgð og vill umsvif ríkisins sem minnst. Frjálshyggja er ekki annað en að hver og einn beri ábyrgð á gjörðum sínum, hvort sem hann velur að leggja fé sitt inn á bankabók eða stofna fyrirtæki. Frelsi er einungis frelsi ef því fylgir ábyrgð. Frelsi á ábyrgð ríkisins er eitthvert sorglegasta fyrirbæri sem um getur. Þeir sem halda að það sé lausn allra vandamála eru á villigötum.
Sigurgeir Orri Sigurgeirsson, 23.3.2009 kl. 17:14
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.