15.3.2009 | 12:17
Í framhaldi af góðum útvarpsþætti
Í morgun kl. 9.03 hóf göngu sína í Ríkisútvarpinu, Rás I, nýr þáttur, sem kallast Stjórnskipan lýðveldisins og er í umsjá þeirra Ævars Kjartanssonar og Ágústs Þórs Árnasonar. Þátturunn verður endurfluttur annað kvöld og er ástæða til að benda þeim, sem misstu af honum, að leggja við hlustir. Þetta er fyrsti þátturinn af fjórum. Hlusta má á þáttinn hér.
Í dag ræddu þáttarstórnendur við Ragnar Aðalsteinsson lögmann, en hann hefur, sem kunnugt er, verið einn ötulasti talsmaður lýðræðishreyfingarinnar og mannréttindabaráttu á Íslandi um langt skeið.
Eitt af því, sem Ragnar benti á í þættinum, var að samkvæmt fyrirliggjandi frumvapi um stjórnlagaþing, væri gert ráð fyrir heldur fáum fulltrúum á þinginu, en reiknað er með, að þeir verði 48 talsins. Ég tek undir þessi varnaðarorð Ragnars. Einnig deili ég ótta hans um, að svo fámennt stjórnlagaþing, valið í almennum kosningum, endurspegli ekki vilja þjóðarinnar. Ef hvert 1000 landsmanna ætti fulltrúa á þinginu, væri t.d. minni líkur á því, að fólk kysi milli frambjóðenda, sem það þekkti hvorki haus né sporð á, heldur en ef fulltrúarnir verði aðeins 48. Þá er hætt við því, að hin s.k. þekktu andlit" skjóti upp kollinum.
Ég hef áður bent á það hér á blogginu, að stjórnlagaþingið verði helst að starfa í tveimur deildum; neðri deild, sem kosið verði til af almenningi og efri deild, þar sem fulltrúar ýmisa hagsmunahópa og stofnana sitji. Hér á ég t.d. við verkalýðshreyfinguna, landshlutasamtök, Öryrkjabandalagið, vinnukaupendur, menntakerfið o.s.frv. Þessi deild ætti, að mínu mati, að vera ráðgefandi, meðan endanleg tillaga að stjórnarskrá væri í höndum almannadeildarinnar, eð a neðri deildar.
Því miður virðast stjórnmálamennirnir, sem þegar eru farnir að skilgreina sjálfa sig, sem sérstaka stétt, vera að ná undirtökum varðandi hugsanlega stjórnarskrárbreytingu. Þeirri óheillaþróun verður að snúa við. Það má ekki gerast, að stjórnmálaflokkarnir fylli stjórnlagaþingið af leppum sínum.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.