Um prósaljóð Ivars Lo-Johansson um sundafrek Guðlaugs

Í dag liðinn aldarfjórðungur frá hinu einstaka afreki, þegar Guðlaugur Friðþórsson stýrimaður, synti til lands í Vestmannaeyjum, um 5-6 km leið, eftir að bát hans, Hellisey hvolfdi og sökk síðan austan Heimaeyjar.  Eftir sundið þurfti hann svo að ganga berfættur til byggða, m.a. yfir hvasst hraun.  Fjórir skipsfélagar Guðlaugs fórust í þessu hörmulega slysi.

Nokkrum árum eftir þetta, þegar ég bjó í Stokkhólmi, var ég beðinn fyrir skilaboð til rithöfundarins Ivars Lo-Johansson (1901 til 1990).  Hann var nefnilega eins og klukka og gekk alltaf fram hjá vinnustað mínum á ákveðnum tíma dags.

Ég brá mér út á tilsettum tíma og heilsaði upp á skáldjöfurinn, þegar hann bar þar að garði.  Tók hann því vel, en þegar ég kynnti mig og sagðist vera Íslendingur, setti hann fingur fyrir munn sér og gaf mér þannig til kynna, að þögn mín væri honum nokkurs virði.  Því næst fór hann með prósaljóð um þetta einstaka sundafrek Guðlaugs.  Eftir það leit hann á mig og sagði „Þetta er nútíma Íslendingasaga".

Því miður man ég ekki þetta meitlaða listaverk Ivars frá orði til orðs.  Ég dreg það sórlega í efa, að það finnist í handritum hans; að öllum líkindum orti hann þetta á staðnum.

Segi menn svo, að ekki sér nokkur frændsemi með norrænum þjóðum.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband