7.3.2009 | 10:49
Þjást 80% þingmanna af ofmetnaði?
Undarlegt má það heita, ef rétt er sem skoðanakannanir sýna, að aðeins 13% landsmanna treysti Alþingi á sama tíma og 80% núverandi alþingismanna hyggjast bjóða sig fram aftur.
Nú hygg ég, að flestir Íslendingar treysti mæta vel þingræðisfyrirkomulaginu og þar með Alþingi sem stofnun. Aftur á móti er ljóst, að þeir treysta illa þeim, sem þar sitja fyrir á fleti. Það hlýtur því að vera nokkuð ljóst, að umrædd 80% þingmanna ofmeta stöðu sína meðal þjóðarinnar. Það má einnig orða þetta á þann veginn, að umræddir þingmenn skilji ekki landsmenn.
Nú má vel vera, að þessir þingmenn, eða flestir þeirra, nái endurkjöri. En það verður þá einungis í skjóli flokkakerfisins og kosningafyrirkomulagsins.
Vissulega má leiða nokkur rök að því, að breytingar á kosningalögum nú, séu nokkuð nærri kosningum. En aðstæður í samfélaginu eru heldur ekki með eðlilegum hætti. Og ef persónukjör af framboðslistum á að vera marktækt, þarf það auðvitað að ganga jafnt yfir alla þá flokka og hreyfingar, sem bjóða fram. Hver eru rökin fyrir því, að kjósandi flokks A geti breytt framboðslistanum að eigin vild, meðan kjósandi flokks B getur það ekki, nema samkvæmt gömlu reglunum, þar sem útstrikanir eru eingöngu neikvæðar, þ.e. til þess gerða að lækka menn á lista, en ekki hækka? Þarna er vitanlega verið afð færa forystuliði einstakra flokka of mikið vald.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Ætli sé ekki nær að tala um að 100%
Halldór Egill Guðnason, 7.3.2009 kl. 16:06
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.