Bók, sem allir verða að lesa - og ekkert múður

Mig langar til að vekja athygli á yndislegri bók, sem ég var að lesa í dag, eftir að þýðandinn, Vilborg Dagbjartsdóttir gaf mér hana í gær, í bland við ósvikna fræðslu um vatnslitakúnstina.  Þetta er lítil bók, aðeins 54 blaðsíður og í litlu broti. En bókin sjálf, sem prentverk er yndi allra sannra bókamanna.  Og innihaldið er ekki síðara.

Bókin sú arna heitir einfaldlega Sakiþýðingar Vilbjargar Dagbjartsdóttur.  Þarna er að finna þrjár stuttar smásögur eftir Bretann Hector Hugh Munros, sem skrifaði undir skáldanafninu Saki.  Ýmsir vilja halda því fram, að hann sé hinn eini sanni meistari smásögunnar á 20. öld.  Læt aðra dæma um það.  En þýðingar Vilborgar eru meistaraverk.

Saki var fæddur í Burma, árið 1870, en þar var faðir hans embættismaður nýlendustjórnar Breta.  Móður sína missti drengurinn barnungur og var þá sendur til Englands, þar sem tvær íhaldssamar kerlingaherfur úr hinni óforbetranlegu viktoríanösku miðstétt ólu hann upp.  Þær sögur, sem birtast í þessari bók, lýsa einmitt uppreisn drengja gegn slíkum fraukum og þeim aðstæðum, sem þær skópu sjálfum sér og öðrum.  Þótt einn drengur sé til hverrar sögu nefndur, dylst ekki, að um sama dreng er að ræða í öllum sögunum.  Til eru þeir, sem halda því fram, að Astrid Lindgren hafi sótt ýmislegt í smiðju Saki.  Ég skal ekki segja.  En svo mikið er víst, að mér kom Emil í Kattholti í hug, þagar ég las fyrstu söguna í bókinni þeirri arna, en hún heitir Ruslakompan.

Þrátt fyrir að hann væri kominn yfir venjulegan herþjónustualdur, gekk Saki í herinn í upphafi fyrri heimsstyrjaldar og þar féll hann, undir árslok 1916.  Hann var skotinn af þýskri leyniskyttu, sem gat miðað hann út á sígarettuglóð.  Sagan segir, að andlátsorð hans hafi verið: „Drepið í andskotans sígarettunni". 

Hafi Vilborg heila þökk fyrir, að kynna mér þennan frábæra höfund með snilldarþýðingum sínum. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband