Stjórnlagaþing virðist dauðanum merkt.

Þegar kreppan skall á í október á síðasta ári, urðu ýmsir til að benda á, það sem þeir töldu vera nauðsyn þjóðstjórnar meðan aðrir, þ.á.m. höfundur þessarar bloggsíðu vildu utanþingstjórn.  Þjóðstjórn var illmögulegur kostur; ósættið á Alþingi hefði einfaldlega færst inn í ríkisstjórnina.  Utanþingsstjórn hefði haft þann kost, að stjórnmálamönnum hefði þá verið settur stóllinn fyrir dyrnar, meðan hægt hefði verið að undirbúa stjórnlagaþing, til að gera tillögur um nauðsynlegar stjórnarskrárbreytingar.

Af gömlum vana tóku stjórnmálamenn þann kostinn, sem lakastur var.  Þeir mynduðu bráðabirgðarstjórn, sem þar að auki er minnihlutastjórn.  Að henni standa í raun þrír flokkar, Samfylkingin og Vinstri grænir, sem standa á miðjum vellinum og Framsóknarflokkurinn, sem leikur á hliðarlínunni.  Samfylkingin og Framsóknarflokkurinn bera báðir pólitíska ábyrgð á kreppunni ásamt Sjálfstæðisflokknum og Vinstri grænir eru í raun óskrifað blað.

Minnihlutastjórn, sem ofan í kaupin á ekki að starfa nema í rúmlega 80 daga er gagnslaus.  Það þarf ekki að koma neinum á óvart, þótt annar fulltrúi Framsóknar í viðskiptanefnd Alþingis tefji framgang Seðlabankafrumvarpsins en hinn ekki.  Þetta er hefðbundin leið þessa flokks til pólitísks afstöðuleysis í þeim tilgangi, að fá aðgang að kjötkötlunum.  Hafi formönnum stjórnarflokkanna ekki verið þetta ljóst, er kominn tími til, að þeir finni sér nýjan sandkassa.

Það versta er þó, að nú eru ýmsir þeirra, sem krafist hafa stjórnlagaþings, farnir að keppast við að ná sér í þingsæti á vegum Samfylkingarinnar og Vinstri grænna.  Þar með getur stjórnlagaþingið, ef svo ólíklega skyldi fara, að því verði komið á laggirnar, tæpast orðið nokkuð annað en flokksdeild þessara flokka.  Það virðist því dauðanum merkt.

 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband