20.2.2009 | 23:18
Hetjur vorra tíma?
Þættirnir Á sagnaslóð, sem fluttir eru í Ríkisútvarpinu, Rás I á föstudagsmorgnum, eru með allra athyglisverðasta útvarpsefni síðari ára. Þar er ekki fjallað um málefni líðandi stundar, heldur líf genginna kynslóða. Ekki er þó viðfangsefni þessa þátta eins fjarri okkar tímum og ætla mætti, enda móta kynslóðirnar sig ekki sjálfar. Líf þeirra og störf, afrek og afglöp eru sem hlekkir í langri keðju.
Ekki alls fyrir löngu var í nokkrum af þessum þáttum, flutt erindi Einars Kvarans um stórbrotnar konur í Íslendingasögum. En látum þær liggja milli hluta hér. Það sem mig langar til að gera að umfjöllunarefni, er sú fullyrðing Einars Kvaran, að hver maður skuli dæmdur eftir þeim tindi, sem hann klýfur hæstan.
Vissulega er þessi kennig nokkuð í samræmi við Íslendingasögur og aldalanga túlkun þjóðarinnar á þeim. En væri þó ekki ómaksins vert að kanna, hvort í þessum orðum Einars Kvaran megi greina áhrif frá ofurmenniskenningu Friedrichs Nietzsche?
Stórmennska, sem svo er kölluð, hefur raunar lengi verið Íslendingum aðdáunarefni, enda þótt hún hafi í raun fyrst og fremst falist í fyrirferð, sem auðvitað hefur ekkert með stórmennsku að gera, heldur flokkast undir látalæti.
Ég man enn eftir leikriti, sem flutt var í útvarpinu, þegar ég var barn. Það fjallaði um Galilei Galileo og baráttu hans við páfavaldið vegna kenninga hans, um að jörðin snérist umhverfis sólu en ekki öfugt. Í lok leikritsins, þegar gamli maðurinn hefur afneitað eigin kenningu, til að forða sér frá bálinu, ávítar einn af áhangendum hans hann og segir: Aumt er það land, sem á enga hetju. En Galileo svarar um hæl: Nei vinur minn, en aumt er það land, sem þarf á hetjum að halda.
Væri nú ekki ráð, að við Íslendingar hættum að ofmeta þá menn, er hreykja sér á fjallstindum, sem og þá, sem kallaðir eru hetjur. Ef til vill færum við þá að taka ábyrgð á sjálfum okkur.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt 22.2.2009 kl. 11:34 | Facebook
Athugasemdir
Mætti benda þér á að lesa söguna Hetja vorra tíma?. Bók skrifuð af Lermantov. Næst besta bók sem ég hef lesið á eftir Gerplu. Leynir skemmtilega á sér. Minnitst bara á þetta vegna fyrirsagnar á þessum pistli þínum. =)
Jón Gunnar Bjarkan, 21.2.2009 kl. 02:51
Sæll Pjetur. Er þetta ljóð? Eru allir hættir að yrkja þannig að ljóði höfði til manns? Ég leyfi mér að efast um að þetta "ljóð" verði langlíft með þjóðinni.
Sigurður Sveinsson, 22.2.2009 kl. 08:03
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.