19.2.2009 | 18:59
Þumalputa siðferðið
Íslensk stjórnmál byggjast fyrst og fremst á hagsmunum. Þegar kemur að hugsjónum og siðferðislegum grundvallaratriðum, klóra menn sér í kollinum, eins og þeir viti ekki um hvað er verið að ræða. Auðvitað gerir kjördæmaskipanin alla hugsjónapólitík óraunhæfa. Samsteypustjórnir eru reglan og menn verða að gjöra svo vel, og mynda ríkisstjórn ólíkra flokka. Það þýðir í raun, að markmið og hugsjónir stjórnmálaflokka eru markaðsvara við hverja einustu stjórnarmyndun.
En þetta, út af fyrir sig, þarf ekki að koma í veg fyrir að gengið sé út frá siðferðislegum grundvallaratriðum í stjórnmálum. Þó er það gert. Hvers vegna? Vitanlega á fámennið sinn þátt í því. En það skýrir ekki allt.
Tökum dæmi um misnotkun á almannafé. Í orði viðurkenna allir réttmæti 7. boðorðsins: Þú skalt ekki stela. En þegar við horfum upp á misnotkun á almannafé, sem í raun og veru er ekkert annað en þjófnaður, þá er fyrsta hugsun okkar þessi; hver stal, hve miklu stal hann og til hvers?
En er það ekki verknaðurinn, sem máli skiptir? Breytir það eðli þjófnaðar, hver þjófurinn er, hve miklu hann stal eða í hvaða tilgangi? Tæpast, enda mundi 7. boðorðið þá væntanlega hljóma eitthvað á þessa leið: Þú skalt ekki stela, nema þá frá almenningi og að þú sért í réttum flokki og notir þýfið ekki aðeins í þína þágu, heldur látir flokksfélaga þína einnig njóta þess.
Það er stigsmunur á innbroti, misnotkun almannafjár og ránsferðum útrásarvíkinga. En eðlismunurinn er enginn.Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.