17.2.2009 | 22:11
Furstinn í Svörtuloftum
Á Arnarhóli, þar sem verkafólk forðum gerði að fiski í Sænska frystihúsinu, sem svo var kallað, stendur nú kastali einn, dimmur og ljótur. Þar heita Svörtuloft. Í kastala þessum ríkir fursti einn, sem jafnt er herra og þræll. Fór hann forðum fyrir blindum her, er taldi hann allt að því guðlegrar náttúru. Þar var hann glæstur herra. En her þessum glopraði hann úr höndum sér, þó enn haldi hann hylli margra í þeirri fylkingu. Nötra þeir sem forðum, jafnt í auðmýkt og tilbeiðslu undan skörpu augnatilliti hans.
Ekki var honum þó kastað á guð og gaddinn, heldur var hann sendur í Svörtuloft. Þar skyldi honum, líkt og Napóleon Frakkakeisara á Elbu forðum, gert kleyft, að horfa í spegil, er sýndi þá mynd, sem furstanum væri þóknanleg. Gekk svo um hríð.
En þar kom, að hrun varð í björgum, svo sjálfur kastalin nötraði. Við það komu sprungur í spegilinn. Og er spegilsins naut ekki lengur við, varð furstinn þræll sinnar brostnu myndar. Forðum hafði hann með her sínum tryggt vaskri vinasveit auð og völd. En eins og jafnan er með foringja, eru þeir fyrst sviknr af þeim, sem þeir hafa mest hlaðið undir. Svo fór og hér.
Enn situr furstinn í Svörtuloftum. Sagt er, að hann reyni að raða saman brotum spegils drauma sinna. En þau munu jafnan renna honum úr hendi. Því það sem er yndi hvers draums er broddur vökunnar.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt 18.2.2009 kl. 06:36 | Facebook
Athugasemdir
Furstinn heppinn að hafa ekki spegil.
Það er ekki sjón að sjá hann jafn þrútinn og rauður sem hann er. Er svona svakalegt vinnuálag í Svörtuloftum ?
Páll A. Þorgeirsson (IP-tala skráð) 18.2.2009 kl. 17:57
Vel skapað rifrildi. Þakka kærlega fyrir mig.
nicejerk (IP-tala skráð) 23.2.2009 kl. 20:28
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.