16.2.2009 | 22:00
Á vængjum drauma
Stundum gerist það, að lítil hjörtu hýsa stóra drauma. Og draumar hafa vængi. Þá vill gjarnan fara svo, að menn láti berast um loftsali víða á vængjum drauma sinna, líkt og Íkarius forðum. Flug hans var hátt, sem geð hans bauð og fall hans því mikið.
Suður á Bessastöðum situr að búi maður einn, sem þjóðin fól umsjón þess staðar, að hann mætti rækta þar tún og nytja, henni til heilla og sjálfum sér til vegsauka. Þess tók þó nokkuð snemma að gæta, að búandkarl þessi yndi lítt hokrinu; hugur hans stefndi nær sólu en túnbleðli, eins þótt á fornu höfuðbóli væri.
Nú vildi það bóndanum á Bessastöðum til happs, að í landinu bjuggu fleiri litlir menn, sem vildur verða stórir. Komust þeir yfir auraráð nokkur. Kom þar, að þeim þótti þröngt um sig norður í Dumbshafi og tóku að herja á önnur lönd að hætti víkinga. Líkaði Bessastaðabónda stórmennska þeirra og yfirlæti allt og slóst í þeirra hóp, að greiða þeim götu meðal höfðingja heimsins.
Lengi stóð þeirra för um lönd og álfur, Bessastaðabóndans og vina hans víkinganna. Og fóru af þeim miklar sögur. Þó læddist sá grunur að bónda, að vissara væri, að hann hefði hönd í bagga, þá er saga hans yrði færð í letur. Réði hann sér því þjálan sagnaþul, er skráð hafði sögur af höfðingjum, að færa á bók, þá sögu er henta þætti, að aðrir hefðu til aflestrar um ferðir hans og feril. Gæti þá svo farið, að hann yrði sjálfur talinn með köppum, er fram liðu stundir. Reyndist sú forsjálni bóndans honum til nokkurs ábata, því rétt í þann mund, er þjónsverk hins þjála skrifara hafði verið fest í band og borið fyrir augu þjóðarinnar, hrundu loftkastalar víkinganna. Stóð þá bóndi einn á hlaði Bessastaða, utan hvað hann hafði hjá sér hund einn og spúsu sína, sem hann hafði rekist á í tildursölum höfðingja og haft með sér út til Íslands. Og hlýddi hvorugt ráðum hans.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Þetta er bara snilld!
Ingibjörg Hinriksdóttir, 17.2.2009 kl. 20:09
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.