Í skugga vígreifs föður

Hannibal Valdimarsson var vígreifur baráttumaður.  Orrustugnýrinn lék honum betur í eyrum en önnur hljóð. Ef til vill hjó hann stundum nær sér en skyldi, en honum fyrirgafst það, a.m.k. af þeim, sem unnu góðum bardaga.  Hann fór fyrir liði sínu; var leiðtogi. 

Slíkir menn varpa frá sér jafnt bjarma sem skugga.  En þeir eru ólíkindatól og því erfitt að henda reiður á því, hvort þeir, sem nærri þeim standa, eru í skugganum eða bjarmanum.

Jóni Baldvin Hannibalssyni er margt til lista lagt.  En hann er ekki leiðtogi.  Til þess er hugur hans of skiptur milli stjórnmálamannsins og bóhemsins.  Hann hefur átt glæstar stundir á vettvangi stjórnmálanna; glæstar en skammar.  Sem bardagamaður er hann einvígskappi.  Á hólminum getur hann gert út um málin; svo eru þau úr sögunni.  En hann getur ekki farið fyrir her, til þess skortir hann bæði úthaldið og skipulagshæfileikana.  Þegar orrahríðin dregst á langinn hverfur hann í skugga síns vígreifa föðurs.  Það eru hans örlög.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Júlíus Valsson

Þú meinar að hann sé eiginlega eins konar "skytta" (Musketeer).
Hverjar ætli séu þá hinar tvær?

Júlíus Valsson, 16.2.2009 kl. 07:50

2 Smámynd: Guðjón Sigþór Jensson

Minnisstæður er Hannibal í kosningunum 1967 þá hann klauf Alþýðubandalagið. Þá voru uppi umleitanir hans að sættast við Gylfa Þ. Gíslason formann Alþýðuflokksins og draumur um sameiningu flokkanna til vinstri. Það gekk ekki eftir og varð Hannibal milli þessara tveggja flokka. Fjórum árum síðar voru Samtök frjálslyndra og vinstri manna stofnuð. Þá sótti Hannibal fylgi inn í Alþýðuflokkinn sem átti ekki miklum vinsældum að fagna sennilega ekki fyrr en Vilmundur Gylfason, Jóhanna Sigurðardóttir og Jón Baldvin koma til sögunnar. Klofningur virtist vera það meðal sem gjarnan var beitt ef ágreingur varð um mikilsverð mál og hvorugur vildi víkja.

Nú bendir flest til að hægri flokkurinn Sjálfstæðisflokkur sem hefur oft brugðið sér í dulargervi og auglýst sig sem „Flokk allra stétta“ og að Ísland væri „stéttlaust“ þjóðfélag. Nú eru slíkar fullyrðingar sem öfugmæli enda Sjálfstæðisflokkurinn með Framsóknarflokknum útungunarstöð braskara og fjárglæframanna.

Mosi

Mosi

Guðjón Sigþór Jensson, 16.2.2009 kl. 16:15

3 Smámynd: María Kristjánsdóttir

Eg hef kunnað ágætlega við Jón Baldvin frá því hann kom frá Bandaríkjunum. Hann hefur lært margt þar. Ég vona að minnsta kosti að hann haldi áfram að messa um heimsvaldastefnu þeirra um sinn. Hinsvegar leiðast mér foringjar og leiðtogar, nenni varla að hugsa um þá.

María Kristjánsdóttir, 16.2.2009 kl. 16:15

4 identicon

Þetta er að mínu mati meira en spaugilegt hjá honum.

Hallærislegt.

Hann er höfundur frjálshyggjunnar. Og ætlar nú að bjarga þjóð sinni uppúr drullunni sem hann talaði svo fjálglega fyrir, á sínum tíma.

Sigrún Jóna (IP-tala skráð) 16.2.2009 kl. 21:52

5 Smámynd: Guðjón Sigþór Jensson

Seint verður fullyrt að Jón Baldvin sé höfundur frjálshyggjunnar en hann greiddi götu hennar hér á landi ásamt Davíð og Hannesi Hólmsteini.

Það er umhugsunarvert að síðasta vinstri stjórnin fyrir „íhaldseilífðina“ sem varaði nær 18 ár, hafði náð umtalsverðum árangri í efnahagsmálum. Svonefnd „þjóðarsátt“ hafði ASÍ, BSRB og VSÍ unnið að með þátttöku ríkisvaldsins 1990. Þetta voru mikil tímamót sem íslenska íhaldið gumaði síðan mikið af.

Athygli mína vakti þegar Davíð var upp á sitt besta þá nefndi hann oft Hannes Hafstein sér til halds og trausts.Kannski hann var fyrirmynd hans í hvívetna.

Þess má geta að HH „keypti“ hús Hans Elefsen hvalveiðimanns á Sólbakka við Önundarfjörð fyrir eina krónu. Alltaf hefur verið spurning hvort um mútur hafi verið að ræða, að HE hafi verið að launa HH fyrir velvild og skilning á hagsmunum sínum í sinn garð. Þetta hús sem nú gengur undir heitinu „Ráðherrabústaðurinn“ seldi Hannes 3 árum síðar Landssjóði (Ríkissjóði) fyrir 52.400 krónur. Er óhætt því að segja að krónan sem HH greiddi fyrir húsið hafi ávaxtast vel.

Ekki fer neinum sögum um hvernig Davíð hefur ávaxtað sínar krónur.

Mosi

Guðjón Sigþór Jensson, 17.2.2009 kl. 10:14

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband