13.2.2009 | 22:40
Stjórnlagaþing og engar refjar
Allt frá stofnun lýðveldisins 1944, hafa menn gert sér ljóst, að þörf sé á breytingu stjórnarskrárinnar. Alþingi hefur nokkrum sinnum sett málið í nefnd og svæft það jafnharðan. Hvers vegna? Stjórnarskráin er grundvöllur flokksræðisins.
Allt frá októberhruninu hefur fólk krafist stjórnlagaþings, sem hafi það hlutverk, að semja drög að nýrri stjórnarskrá, sem þjóðin kysi um. Engin stjórnmalaflokkur þorði að setja sig upp á móti þeirri kröfu; þangað til nú.
Nú bregður svo við, að stjórnarflokkar minnihlutastjórnarinnar, Samfylkingin og Vinstri grænir draga lappirnar í þessum efnum og bera við kostnaði við stjórnlagaþing. Heyr á endemi! Samfylkingin er að mestu leyti gamli Alþýðuflokkurinn. Hversu miklu fé hafa kratar sóað í bitlinga sína í gegnum tíðina? Og ekki bara þeir. R-listinn, sem fyrst og fremst var kosningabandalag Vinstri grænna og krata, kom sér upp mjög álitlegu bitlingakerfi í Reykjavík. Þá var ekki horft í kostnaðinn.
Sannleikurinn er sá, að stjórnarflokkarnir óttast, að stjórnlagaþing gæti valdið straumhvörfum í stjórnmálun og þá ekki síst á vinstri kantinum. Þeim stendur hjartanlega á sama um kostnaðinn við þinghald og kosningar til stjórnalagaþings. En þeir eru uggandi um eigin hag.
Krafan er enn sem fyrr, stjórnlagaþing, þar sem almenningi gefst kostur á umræðum um þetta þjóðþrifamál, án nærveru stjórnmálamanna, enda á ný stjórnarskrá að setja þeim skorður.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Lýðræði í mynd flokksræðis er móðgun við okkur þegnana. Ísland á að vera fyrir fólk en ekki tækifæri handa ómerkilegum framapoturum.
Ég vil engan afslátt gefa á kröfunni um stjórnlagaþing og án afskipta allra pólitíkusa.
Árni Gunnarsson, 14.2.2009 kl. 10:48
Það er barnaskapur að halda að nýtt stjórnlagaþing nú geti breytt nokkru í þeim hremmingum sem 18 ára stjórnarseta íhaldsins hefur valdið. Það eru bara nokkrir dagar til kosninga. Þessi minnihlutastjórn á þræl að einkavin. Það voru vond mistök að mynda hana og mun sennilega verða vatn á myllu íhaldsins. Íhaldið hefur langa reynslu af að þyrla upp moldviðri og kosningavélin er vel smurð ennþá. Þó það sé með allt niðrum sig og efnahagur landsins rústir einar er samt mikil hætta á að það nái vopnum sínum fyrir kosningar. M.a. vegna þess að margir andstæðingar þess eru með nýtt stjórnlagaþing á heilanum. Bestu kveðjur í Hveró.
Sigurður Sveinsson, 14.2.2009 kl. 12:00
Hverjir eiga að vera í stjórnlagaþinginu. Heldur þú að frjálshyggan eigi ekki sína talsmenn og fulltrúa þar ?
Saman mynda íhaldsöblin bandalag þar gegn breytingum fyrir fólkið.
Var það ekki XB fyrirfólk = snobbliðið braskara íhaldsins.
hann (IP-tala skráð) 14.2.2009 kl. 13:29
Gott að heyra þína rödd Pjetur... Stjórnkerfið er gegnsýrt af flokksræði og Alþingi óstarfhæft. Þar sitja þingmenn meirihlutans og hafa fátt annað að gera en verja flokksræðið sem birtist á ráðherrabekkjunum. Með því að skera framkvæmdavaldið frá, færist löggjafarvaldið aftur inn í þingið og þá fyrst verður vinnufriður þar.
Svo minni ég á að skömmu eftir bankahrun og skömmu fyrir jól voru afgreidd fjárlög þar sem mörg hundruð milljónum var varið í "ýmis verkefni" á safnliðum sem eru góðra gjalda verð (sérstaklega í góðæri) en eiga að mínu mati alls ekki að vera á verksviði löggjafarvaldsins...
Stjórnlagaþing og það strax...
Helga Sigrún Harðardóttir, 14.2.2009 kl. 23:28
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.