29.1.2009 | 21:59
Enn um stjórnlagaþign
Nauðugur geng ég til þess leiks, að hæla Framsóknarmönnum. Þó er því ekki að neita, að það skilyrði, sem þeir setja Vinstri grænum og Samfylkingunni fyrir stuðningi við minnihlutastjórn þeirra er viturlegt. Þar á ég við kröfuna um stjórnlagaþing.
Þann 27. nóvember s.l. fjallaði ég um nauðsyn slíks þing á bloggi mínu, og vísa til þess hér. Ólíkt Framsóknarmönnum geri ég að vísu ráð fyrir því, að stjórnlagaþingið starfi í tveimur deildum, almannadeild, sem fari með endanlegt vald og deild hagsmunaaðila, sem sé ráðgefandi. En þetta er útfærsluatriði.
Í tillögu Framsóknarflokksins nú er lagt til, að 63 fulltrúar sitji stjórnlagaþingið. Það hugnast mér ekki. Tengingin við Alþingi er of ljós. Mér líkar heldur ekki sú hugmynd, að landið allt yrði eitt kjördæmi, þegar kosið yrði til stjórnlagaþingsins. Slíkt býður upp á lýðskrum. Ég vil, að fulltrúar í almannadeildinni verði einn á hverja 1000 íbúa og að kosið verði í samræmi við núverandi kjördæmaskipan, eða þá, sem á undan var notuð. Aðalatriðið er, að kjósendur hafi nokkur kynni af þeim, sem bjóða sig fram til stjórnlagaþingsins.
Mér er ljóst, að hugmynd mín um deildarskiptingu þarfnast umræðu. Slíkt fyrirkomulag er ekki nauðsynleg forsenda stjórnlagaþings. Aðalatriðið er, að þjóðin komi sjálf að nauðsynlegum breytingum á stjórnarskrá.
Framsóknarmenn leggja til, að forseti lýðveldisins, ráðherrar og alþingismenn fái ekki að taka þátt í störfum stjórnlagaþingsins. Ég tek undir það. En mér þykir rétt, að það sama gildi um sveitarstjórnarfulltrúa.
Enda þótt viss munur sé á hugmyndum mínum og Framsóknarmanna varðandi stjórnlagaþingið, get ég tekið undir með þeim í grundvallaratriðum. En hér fer saman þörf skjótra úrræða og hyggilegrar útfærslu.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Látum ekki blekkjast! Það eru alvarlegar mótsagnir í málflutningi Framsóknarmanna! Er það t.d. lýðræðinu til framdráttar að vilja flýta kosningum sem mest? Nei, eftir daginn í dag sjást púkar tveir á öxlum Sigmundar, don Alfredo og Finnur eru komnir í útgerð á nýja formanninum! Einhver sagði, að Sigmundur ætlaði sé að gerast aftursætis-forsætisráðherra. En er hann í eigu flokkseigendafélagsins? Ég held það!
Auðun Gíslason, 29.1.2009 kl. 23:35
Djöfulsins forsmán. Ertu svo eftir allst saman laumuframmari? Ef við setjum upp stjórnlagaþing er algjörlega úr í hött að þar sitji 63 menn. Ég sting uppá Sigurði Líndal, mínum gamla og góða læriföður. Honum til halds og trausts yrðu svo 12 valinkunnir heiðursmenn. Þessir 13 færu létt með að gera þær breytingar sem þarf. Þeim dygðu nokkrar vikur. Ég vil benda á að margar þjóðir eru nú með ákaflega lítt skráð stjórnlög. Hefðirnar duga t.d. bretum ágætlega. Og mörg verstu einræðisríkin eru með flottustu stjórnarskrárnar þar sem mannréttindi eru varin í bak og fyrir. Marklaus plögg sem eru einskisvirði. Annars allt gott héðan. Bestu kveðjur til ykkar Ingibjargar. SS
Sigurður Sveinsson, 30.1.2009 kl. 11:36
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.