22.1.2009 | 23:33
Hvernig mótmæli?
Ég efast um, að þeir séu margir, sem ekki hafa samúð með málstað mótmælenda, sem krefjast afsagnar ríkisstjórnarinnar og réttarhalda yfir þeim fjárplógsmönnum, sem komið hafa þjóðinni á kaldan klaka. En þegar fámennur hópur öfgamanna og drukkinna ofstækismanna, er farinn að grýta lögreglumenn og ata þá saur, er einfaldlega farið út yfir öll mörk. Þeir sem þannig haga sér, eru á sama siðferðisstiginu og hinir, sem komið hafa þjóðinni á vonarvöl. Og þegar menn eru farnir að hvetja til þess, að veist verði að heimili lögreglumanna og fjölskyldumeðlinum þeirra, þá er mælirinn ekki aðeins fullur; það flóir úr honum.
Í Morgunblaðinu í dag er sagt frá mótmælum á Akureyri. Þau hafa að vísu farið friðsamlega fram, en með fréttinni birtist mynd af einum mótmælanda, listmálara, hver ekki skal nefndur hér. Hann heldur á skilti, á hvert hann hefur málað afhöggvin höfuð, sem eiga að tákna Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur, Davíð Oddson og Geir Haarde. Blóð drýpur úr sárum. Ingibjörg Sólrún er máluð sem vampíra og Davíð sem blökkumaður, væntanlega vegna sögusagna um, að forfaðir hans einn hafi verið blökkumaður, sem settist að í Djúpavogi á 19. öld. Skyldi listmálarinn telja það Davíð til minnkunnar, að vera hugsanlega ættaður frá Afríku? En látum það vera, ég ætla ekki að ræða kynþáttafordóma núna.
Við, sem mótmælum, krefjumst afsagnar vanhæfra ráðherra og embættismanna; ekki aftöku þeirra. Undir myndinni segir, að listamaðurinn hafi mætt með flott skilti". Orðið flott" merkir glæsilegt á mannsæmandi íslensku. Í hverju skyldi glæsileiki þessarar myndar felast, að nú ekki sé talað um hugarfarið, sem að baki býr?
Við skulum halda áfram að mótmæla, þar til ríkisstjórnin boðar til kosninga. En við skulum forðast að sýna ofbeldi, hvort heldur er með virkum hætti eða táknrænum. Og heiður þeim mótmælendum, sem í nótt tóku sér stöðu fyrir framan lögreglumenn við Stjórnarráðið, til að forða þeim undan grjótkasti, sem og hinum, sem í dag færðu þeim blóm og heitt súkkulaði fyrir utan Alþingishúsið.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Hver segir að kúk og piss sagan sé sönn? Hún kemur bara frá lögreglunni og gamall anarkisti eins og þú trúir henni varla gagnrýnislaust. Ólætabelgirnir koma mótmælendum ekkert við en samt er mjög sterk tilhneiging til að hnýta þeim saman við mótmælendur. Það er gert til að gera lítið úr mótmælendunum og málstað þeirra.
Sigurður Þór Guðjónsson, 23.1.2009 kl. 00:17
Sæll Pétur. Ég tek undir með þér og nafna mínum einnig. Það er misjafn sauður í mörgu fé. Flestir mómælendur hafa hagað sér eins og siðuðu fólki sæmir. Margt bendir til að undantekningarnar séu fyllikúlur og aðrir fíklar. Þó flestir lögreglumenn séu starfi sínu vaxnir eru þar undantekningar líka. Þegar upp verður staðið verður þessi flauelsbylting happadrjúg. Íhaldið sett endanlega í frysti og hafist handa um að rýðja nýjum gildum braut.
Sigurður Sveinsson, 23.1.2009 kl. 08:02
Það sem skipir máli er að halda mótmælunum áfram.
Það er mjög stór hópur mótmælenda sem ætlar sér að taka á þessu vandamáli og leggja lögreglunni lið. Við stöðvum ofbeldið en höldum áfram að mótmæla, því ályktun SffR virðist ekki ætla að hafa þau áhrif sem flestir vildu.
Látum þau sæta ábyrgð.
Arnór Barkarson (IP-tala skráð) 23.1.2009 kl. 11:29
Blessaður vertu..
Það eru alltaf úldnir dropar í hreinum úthöfum.
Ég ætla ekki að láta ólátabelgi stöfða langþráð takmark mitt sem er að koma þessari ríkisstjórn frá völdun og Davíð úr seðlabankanum.
Brynjar Jóhannsson, 23.1.2009 kl. 14:57
Ég er sammála þér Pjetur. Skiltið sem þú lýsir er ekkert annað en svartigaldur. Sama má segja um ýmislegt sem farið hefur fram á þessum mótmælasamkomum, því miður. SjJálf bloggaði ég um þetta í gær.
En hugmyndin með appelsíngulu borðana finnst mér góð. Þar með auðkenna friðsamir mótmælendur sig og lýsa ákveðinni afstöðu gegn ofbeldi án þess að þurfa að sniðganga mótmælin.
Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir, 23.1.2009 kl. 17:42
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.