21.1.2009 | 23:27
Loksins virðist hlustað á þjóðina
Samkvæmt nýjustu fréttum hefur félagsfundur Samfylkingarinnar í Reykjavík samþykkt, gott ef ekki nær einróma, að slíta beri stjórnarsamstarfinu við Sjálfstæðisflokkinn. Fall ríkisstjórnarinnar virðist því aðeins spurning um daga, jafnvel klukkustundir. Þar með skapast ný staða í íslenskum stjórnmálum.
Tilboð hins nýja formanns Framsóknarflokksins, Sigmudar Davíðs, um að verja minnihlutastjórn Samfylkingar og Vinstri grænna falli, þar til efnt verið til kosninga í lok marsmánaðar, er möguleiki, sem vert er að skoða. En fleiri möguleikar eru í stöðunni, rofni núverandi stjórnarsamstarf. Þannig gæti núverandi stjórnarandstöðuflokkar og Samfylkingin krafist utanþingsstjórnar fram að kosningum í vor.
En hvaða leið, sem farin verður, er ljóst, að Samfylkingin verður að taka sér Framsóknarflokkinn til fyrirmyndar og skipta um forystu. Núverandi forysta flokksins ber ásamt Sjálfstæðisflokknum, fulla ábyrgð, bæði á úrræðaleysi ríkisstjórnarinnar eftir að kreppan skall á og eins hömlulausu og algjörlega eftirlitslausu sukki peningaaflanna frá því þessi ríkisstjórn tók við völdum. Sjálfstæðisflokkurinn, Framsóknarflokkurinn og Samfylkingin, sem og forveri hennar, Alþýðuflokkurinn, bera allir sína ábyrgð á ástandinu. Og það gerir Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands einnig. Þess vegna er ekki nóg að sópa út úr þinghúsinu í komandi kosningum; kústur og fægiskúffa sögunnar bíða tiltekta á Bessastöðum.
Ekki má gleyma þvi, að Sjálfstæðisflokkurinn þarf að taka ærlega til í sínum ranni. Þar hafa taumlaus auðhyggjuölf haft töglin og hagldirnar undanfarin ár, með þeim skelfilegu afleiðingum, sem blasa við öllum. Þar hefur sú fasíska kenning ráðið, að rétturinn skuli vera hinna sterku". Það var í skjóli þeirrar kenningar, sem raunar þekkist víðar en í Sjálfstæðisflokknum, að allt eftirlitskerfi með fjármálastofunum var nánast tekið úr sambandi. En meirihluti Sjálfstæðismanna aðhyllist ekki fasístka auðhyggjustefnu. Meirihluti Sjálfstæðismanna er ekki fylgjandi fákeppni í verslun, fiskveiðum og landbúnaði. Meirihluti Sjálfstæðismanna eru fylgjandi borgaralegu frjálslyndi og því, að þeim sem minna mega sín, sé tryggð mannsæmandi lífsafkoma. Þessi meirihluti þarf að hefjast til vegs í Sjálfstæðisflokknum.
En hvað sem gerast mun í einstökum stjórrnmálaflokkum, er meginnauðsynin sú, að allir flokkarnir komi sér saman um sameiginlegan siðferðislegan grunn, sem verði undirstaða stjórnmála í landi hér.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt 22.1.2009 kl. 06:31 | Facebook
Athugasemdir
Ekki "haldirnar" heldur "hagldirnar" - fyrirgefðu smámunasemina" því að öðru leyti er ég sammála þér!
Ragnar
Ragnar Eiríksson, 21.1.2009 kl. 23:56
Þakka þér fyrir leiðréttinguna, hún var þörf. Lagast að morgni.
Pjetur Hafstein Lárusson, 22.1.2009 kl. 00:15
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.