13.1.2009 | 19:00
Vaxandi krafa um stjórnlagaþing
Krafan um stjórnlagaþing fer nú sem eldur í sinu um bloggheima, og ekki aðeins þar, heldur víðar í þjóðfélaginu. Fólk krefst þess, að ný stjórnarskrá verði samin og auðvitað treystir það stjórnmálaflokkunum ekki til slíkra verka. Til þess eru vítin, að varast þau.
Menn eru sammála um, að megin inntak hinnar nýju stjórnarskrár eigi að vera, að breyta Íslandi úr flokksræðisríki í lýðræðisríki. Og ekki mun af veita, samkvæmt nýjustu fréttum, þar sem í ljós kemur, að Ingibjörg Sólrún Gísladóttir formaður Samfylkingarinnar og utanríkisráðherra hefur haft í frammi lítt dulbúnar hótanir í garð ræðumanns á almennum borgarafundi í Háskólabíói í gærkvöldi. Efnislega voru skilaboðin þessi: Talaðu varlega, frama þíns vegna!
Sama gildir um átökin fyrir utan Alþingishúsið í morgun, þegar ríkisstjórnin hugðist halda þar fund og veist var að ráðherrunum. Vaknar í því sambandi raunar sú spurning, hvort þeir hafi ekki þorað að funda í Stjórnarráðinu, eins og vant er.
Allt ber að sama brunni. Lýðræði er samkomulag þjóðar um stjórnarhætti og ákveðin hugmyndafræðilegan grundvöll þeirra. Það samkomulag er að bresta á Íslandi. 70% þjóðarinnar vilja ríkisstjórnina frá, en hún situr sem fastast. Er nema von, að kröfur um stjórnlagaþing gerist æ hávæarari?
Ég vona, að mér sé óhætt að fullyrða, að nær allir Íslendingar vilji reglu og staðfestu í stjórnmálum. En sú regla og staðfesta verða að byggjast á lýðræðislegum grunni og þeim jöfnuði til fjárhagslegrar afkomu, sem tryggir öllum rétt til menntunar, heilbrigðisþjónustu og annarra grunnþátta samfélagsins, án tillits til veraldlegs auðs. Og hún verður einnig að byggjast á því, að allir séu jafnir gagnvart lögum. Ríkisvaldinu láðist að gæta þess, gagnvart s.k. útrásarvíkingum.
Fyrir því eru sögulegar forsendur, að ráðherrar Sjálfstæðisflokksins skilja þetta treglega. Og þær eiga sér djúpar rætur. En hitt, að Samfylkingin skuli aðeins geta státað að einum ráðherra, sem skilur hlutverk sitt sem jafnaðarmanns; það er nokkuð stór biti að kyngja. Hér á ég vitanlega við Jóhönnu Sigurðardóttur. Og þó, Samfylkingin á sér svo sem ekki rætur á þeim slóðum, þar sem mikilla sanda og sæva er að vænta.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Í Sjálfstæðisflokknum meðan Davíð réð þar öllu var traustið á honum svo mikið að almennt var illa séð ef einhver hafði aðra skoðun en hann.
Ýms dæmi eru landsfundir flokksins: Einu sinni vildi Ólafur F. Magnússon koma með mál til samþykktar en var nánast púaður niður áður en honum tókst að ljúka máli sínu. Það varð tilefni að hann yfirgaf Sjálfstæðisflokkinn sem síðar nánast tældi hann til að sprengja upp R-listann.
Þá var Katrín Fjeldsteð læknir með efasemdir um Kárahnjúkavirkjun og var éini þingmaður listans sem vildi ekki fara út í þessa framkvæmd sem hefur dregið heldur betur dilk á eftir sér með fölsku góðæri sem engin innistæða reyndist fyrir. Það kom því ekki á óvart að Alþjóða gjaldeyrissjóðurinn bendir á þessa framkvæmd annari fremur. Hún var einfaldlega of stór fyrir svo ógnarsmátt hagkerfi sem Ísland er.
Við í VG vorum auðvitað ánægðir með að Alþjóðlegi gjaldeyrissjóðurinn staðfesti efasemdir okkar um ágæti Kárahnjúkavirkjunar. Nú bíðum við eftir lokareikning frá Imprégíló og væntanlega verður hann vel „smurður“ enda verða væntanlega útboðsgögnin talin hafa verið meira og minna vitlaus og ónákvæm. Verkefnið hafi því orðið mun umfangsmeira en orðið hafi. Þá hefur álverð farið lækkandi sem annað og rafmagnsverðið fellur einnig.
Það verður því fyllsta ástæða til að ætla að þetta séu afdrifaríkustu afglöp í íslenskri pólitík fyrr og síðar og það sem við erum að upplifa nú eru afleiðingarnar af þessum kórvitlausu ákvörðunum Davíðs Oddssonar og Halldórs Ásgrímssonar.
Svona hefur lýðræðið verið praktísérað í flokksræðinu á Íslandi!
Mosi
Guðjón Sigþór Jensson, 14.1.2009 kl. 13:11
Er ekki alltaf hætt við því, að flokkar hefti frjálsa hugsun, hvaða nafni sem þeir nefnast?
Pjetur Hafstein Lárusson, 14.1.2009 kl. 14:22
Jú frægt var hvernig stjórnvöld losuðu sig lengi vel við þá sem þeim var meinilla við í Rússlandi og síðar Sovétríkunum: senda þessa skilningingssljóju skussa til Síberíu!
Voru ekki þeir sem gagnrýndu Sjálfstæðisflokkinn jafnskjótt kallaðir kommúnistar sem þótti vera nokkuð svæsiðskammaryrði sérstaklega þótti þeim sem ekki voru par hrifnir af hvernig Kommúnistaflokkur Ráðstjórnarríkjanna praktíséraði sósíalismann.
Var þar austur frá í september s.l. eða á Kamtsjatkaskaganum. Þó við Íslendingarnir voru ekki leiddir í gamlar þrælabúðir þá voru húsakynni þar mörg hver ósköp hrörleg. Rússar eru áratugum á eftir okkur. En kemst þó hægt fari. Vonandi þurfa þeir ekki að upplifa fleiri kollsteypur en orðið er.
Þessi ferð varð sú dýrasta utanlandsferð sem eg hefi tekið þátt í. Ekki svo að skilja að ferðin ein sér hafi kostað mikið. En þegar heim kom voru bankarnir við það að falla hver um annan þveran, þá var sparnaðurinn í uppnámi og hlutabréfaeign í þeim fyrirtækjum sem eg taldi vera í lagi, brunnin upp á bálinu. Þökk sé yfirlýsingu Fjármálaeftirlitisins frá 14.ágúst um að bankarnir hefðu staðist álagspróf!
Kveðja
Mosi
Guðjón Sigþór Jensson, 15.1.2009 kl. 08:40
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.