Hörmungarnar í Gaza

Auschwitz; hverjum rennur ekki kalt vatn milli skinns og hörunds við það eitt að heyra þetta orð, eða nöfnin á öðrum útrýmingarbúðum nasista í síðari heimsstyrjöldinni?  Fyrst og fremst voru það Gyðingar, sem þarna voru myrtir, alls um 6.000.000. manna.  En 4.000.000 manna til viðbótar voru myrtar þar og víðar; samkynhneigðir, þroskaheftir, sovéskir stríðsfangar og Sígaunar, svo dæmi séu tekin.  Þess utan var fjöldi manna myrtur í fangabúðum, sem þó töldust ekki útrýmingarbúðir, samkvæmt þýskri skilgreiningarsýki.  Þar á meðal voru um það bil 200.000 þýskir andnasistar.

Gyðingar hafa verið iðnir við, að halda á lofti minningu fólks úr þeirra hópi, sem varð fyrir ofsóknaræði nasista.  Það er síst að furða, enda ber þeim skylda til þess.  Sama skyldan hvílir á herðum alls mannskyns.  En við megum bara ekki gleyma öllum hinum.

Það var eðlilegt, að Gyðingum skyldi heimilað að stofna sérstakt ríki að stríðinu loknu.  Heimurinn þjáðist af samviskubiti gagnvart þeim, ekki síst Evrópumenn.  Og hvað var þá eðlilegra, en að það ríki væri staðsett í landi feðra þeirra, Palestínu?  En það gleymdist því miður, að þar var önnur þjóð fyrir; Palestínumenn.

Reyndar höfðu Gyðingar byrjað að flytja til Palestínu fyrir síðari heimsstyrjöld.  Frá Versalaráðstefnunni eftir fyrri heimsstyrjöld, var Palestína undir breskum yfirráðum í umboði Þjóðabandalagsins.  Bretar opnuðu landið, takmarkað þó,  fyrir Gyðingum, sem fyrst og fremst komu úr hópi Síonista.  En hugmyndin var sú, að þeir lifðu í sátt og samlyndi við þá íbúa, sem fyrir voru.  Það gekk ekki til lengdar.  Og þegar Gyðingarnir flæddu inn í landið eftir síðari heimsstyrjöld, var fjandinn laus.

Allar götur síðan hafa Gyðingar á þessu svæði, þ.e. Ísraelsmenn, hrakið Palestínumenn inn á stöðugt minni og minni landsvæði.  Þar er annars vegar um að ræða vesturbakka Jórdanár og hins vegar Gaza, þar sem Ísraelsmann fara nú með hernaði.  Þarna býr 1.500.000 manna á landsvæði, sem er á stærð við hálft Reykjanes. 

Öllum, sem til þekkja, ber saman um, að hörmungarnar á Gaza séu ólýsanlegar og þarf ekki hernaðarátök til.  Landspilda þessi er iðulega svipt aðdráttum, s.s. rafmangi, matvælum og lyfjum.  Gerandinn í þeim efnum er Ísraelsríki.

Auðvitað hafa Arabar og allra síst Palestínumenn getað viðurkennt tilvist Ísraelsríkis í hjarta sínu.  Mundum við íslendingar fallast á, að mest allt landið yrði afhent Írum, vegna þess, að írskir munkar voru í landinu, þegar Norðmenn bar hér að garði?  Og gætum við sætt okkur við, að hálfri þjóðinni yrði sópað á hluta Reykjanesskaga og hinum helmingnum á smábút af Langanesi?  Ég held varla.  Og ég er alveg viss um það, að við mundum ekki kalla þá menn, sem gripu til vopna, til að við næðum aftur landi okkar og rétti hryðjuverkamenn.  Við mundum kalla þá hetjur!

Fjöldi Ísarelsmanna er andvígur stríðsrekstri gegn Palestínumönnum og þeirri innilokun, sem þeir mega sæta.  Þetta fólk vill samninga og frið. 

Nasistar byrjuðu ekki valdaferil sinn á fjöldamorðum á Gyðingum; þeir ofsóttu þá um leið og þeir komust til valda og juku ófbeldið stöðugt.  Þá sögu þekkja vonandi allir.  Þegar síðari heimstyrjöldin braust út þvinguðu þeir Gyðingana, sérstaklega í Póllandi,  til að setjast að í Gettóum.  Gettóin voru Gasa þeirra tíma.  Og er það ekki kaldhæðni örlaganna, að þegar nasistaböðlarnir fundu hina „endanlegu lausn Gyðingavandamálsins", eins og þeir kölluðu það, var hún fólgin í því, að myrða þá með gasi. 

Gas - Gaza.  Gas - Gaza.  Þetta eru óhuggnanlega lík orð.  Hvert stefnir?

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigurður Sveinsson

Sæll Pjetur. Það stefnir í að ísraelsmenn útrými hverjum einasta palestínumanni. Þeir hafa ævinlega farið sínu fram og komist upp með það vegna stuðningsins frá BNA. Kannski gerist eitthvað í rétta átt þegar Obama tekur við í vikunni. Ef hann tekur í taumana og setur Ísrael stólinn fyrir dyrnar er smávon um frið. Fyrr ekki. Bestu kveðjur í Hveragerði.

Sigurður Sveinsson, 12.1.2009 kl. 07:50

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband