Um orðaval í umræðu

Á undanförnum árum og áratugum, hefur risið upp ný stétt manna á Íslandi, stjórnmálastéttin svonefnda.  Þetta er fólk, sem virðist lifa í öðrum heimi en aðrir, hugsar á öðrum nótum og lætur oftar en ekki, eins og ekki sé til fólk, utan þessa hóps.  Fulltrúar stjórnmálastéttarinnar tala ekki mannamál, heldur upphafið stofnanamál.  Stundum er eins og það hafi ekki tilfinningar til að tjá, heldur hugsi og tali í frösum.  Almenningur skilur ekki þetta tungumál og veit ekki hvaðan á sig stendur veðrið, þegar hann fær þetta framan í sig.  Afleiðingin er oft sú, að fólk gefst upp á að ræða stjórnmál í því samblandi hjartans og rökhyggjunnar, sem nauðsynlegt er.  Og ekki að furða; því orðið „tilfinningar" er jafnvel notað sem skammaryrði af stjórnmálastéttinni.

Þegar svo er komið, að þjóðin og þeir, sem hún kýs til forystu, tala ekki sama mál, er voðinn vís.  Þá er lýðræðið í raun liðið undir lok, eins þótt menn fái allra náðasamlegast að kasta atkvæði sínu á glæ fjórða hvert ár.  Það er þá, sem ekkert er eftir, annað en  að baula á fulltrúa stjórnmálastéttarinnar, þegar hún „af náð sinni" sendir svo sem eitt stykki ráðherra á fund almennings, eins og gerðist í Hafnarfirði í tilefni árásarinnar á St. Jósepsspítala. 

Margir hneykslast á unga fólkinu, sem hylur andlit sinn á mótmælafundum.  En hví skyldi það ekki gera það; stjórnmálastéttin lítur hvort sem er á almenning sem einhvers konar „massa", þar sem engu virðist skipta hver er hver eða hvað menn segja.  Og þegar þverskurður þjóðarinnar kemur saman, eins og gerðist í Háskólabíói um daginn, þá segir stjórnmálastéttin einafaldlega; þið eruð ekki þjóðin!

Stjórnmálastéttin verður að gera sér það ljóst, að þjóðin þarfnast samræðna, annarrs er voðinn vís.  Fólk situr einfaldlega ekki þegjandi undir þeirri ósvinnu, að þau öfl, sem ábyrgð bera á kreppunni, hvort heldur er á stjórnmálasviðinu eða í viðskiptum hagi sér, eins og ekkert hafi gerst.  Það er þess vegna, sem orðræða stjórnmálanna er orðin jafn öfgafull og raun ber vitni.  Og þess skyldu herrar og frúr stjórnmálastéttarinnar minnast, að orð eru til alls fyrst; hætt er við, að hatrið gegn þeim muni ekki lengi birtast á mótmælaspjöldum einum saman.

 Smá biturt gaman í lokin: Í gær kom ég þar inn, sem nokkur hópur var samn kominn.  Á gólfinu lá hundur, þar sem galsi var í mér sagði ég stundarhátt: Hvað er þingmaður að gera hér?  Þá svöruðu þrír viðstaddra samtímis: Talaðu ekki svona illa um hundinn!


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Brattur

... held að í langan tíma hafi verið algjört skilningsleysi þingmanna á kjörum og lífi fólksins í landinu... er nokkuð viss á því að 62 af 63 þingmönnum eru í sínum störfum fyrst til að þiggja launin sín... hugsjónamenn og baráttumenn fyrir kjörum fólksins fyrirfinnast varla á Íslandi í dag... þetta fólk átti m.a. að passa upp á það að bankarnir stækkuðu ekki svona mikið (einkavæðing bankanna var einnig misheppnuð og á ábyrgð pólitíkusanna) sem varð til þess í kjölfar bankahrunsins að atvinna fjölda fólks og afkoma er í rúst. Svo maður tali ekki um skuldaaukninguna, beint peningatap og hækkandi vöruverð... Þingmennirnir sem við kusum brugðust okkur.

Brattur, 11.1.2009 kl. 14:05

2 Smámynd: Sverrir Einarsson

Held að ef það hefðu verið fagmenn, sem störfuðu í eftirlitsstofnununum,sem eiga að hafa eftirlit með bönkunum, þá hefði þetta ekki farið svona, held að flestir sem þar starfa séu í "réttum kunningjahóp" frekar en á faglegum nótum og skilja því ekki hvernig peningar "vinna" ef hægt er að segja svo en þora ekki að koma upp um kunnáttuleysið  með því að víkja sæti fyrir fagfólki.

Sverrir Einarsson, 11.1.2009 kl. 15:33

3 Smámynd: Sverrir Einarsson

Smá viðbót úr því þú komst með þessa sögu um hundinn í partíinu.

Var ekki einhver stofnun að auglýsa eftir heilum til rannsóknar, ég ættlaði að mæla með því að þeir gætu fengið þessa rúmlega 60 sem eru ekkert notaðir hvort eð er þarna við Austurvöllinn.

Sverrir Einarsson, 11.1.2009 kl. 15:35

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband