6.1.2009 | 23:21
Upp og niður á Akureyri
Ég horfði hugfanginn á kvöldfréttir Ríkissjónvarpsins, þar sem sýnt var frá deilum tveggja verktaka í mínum gamla heimabæ, Akureyri. Þar var mætt Þórunn hyrna okkar tíma í öllu sínu veldi og gaf sig hvergi, þótt beitt væri stórvirkri vinnuvél, til að hrekja hana á brott. Þar var skörungur á ferð. Því næst var sýnt, hvar vinnuvélum deiluaðila laust saman. Mættust þar stálin stinn, er armar vélanna skullu saman, líkt og þar færu riddarar á burtreiðum. Hún þjakar það ekki, smámennskan, fólkið sem þannig ryður sér braut
Aftur á móti þótti mér heldur dapurlegt, að horfa í sama fréttatíma upp á nauðungarflutninga gamalmenna frá elliheimili á Akureyri og fram á Kristneshæli. Þar verður þessu fólki holað niður í tveggja manna herbergi, eftir að hafa til þessa búið á sínu eigin herbergi. Skriffinnar kalla þetta víst hagræðingu og telja sér til tekna og þeim stofnunum, er þeir stýra. Rætt var við forstjóra elliheimilisins. Hann var grár, alveg eins og Bjarni Ármannsson í Kastljósinu í gær. Varð ég þar engrar stórmennsku var.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 23:22 | Facebook
Athugasemdir
Á Kristnesi er lífið leitt,
lítt til bjarga fanga.........................
Margret S (IP-tala skráð) 7.1.2009 kl. 16:19
Þakka þér fyrir Margrét. En værirðu ekki til í að senda mér seinnipart vísunnar og tildrög hennar?
Pjetur Hafstein Lárusson, 7.1.2009 kl. 17:00
Mér finnst of blínt á ríkisvaldið í þessum flutningum gamlingjana í Kristnes. Held að stjórn spítalans hér á Akureyri þurfi að forgangsraða betur.
Haraldur Bjarnason, 7.1.2009 kl. 17:15
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.