Hættuástand í uppsiglingu

Hið alvarlega ástand í þjóðfélaginu stigmagnast með hverjum deginum sem líður.  Þetta sjá allir nema stjórnmálamennirnir; augu þeirra virðast lukt.  Tilraun þeirra til kryddsíldarsamkomunnar við Austurvöll á gamlársdag er til marks um það.  Mín vegna mega menn deila um það, hvort viðbrögð ungu mótmælendanna voru æskileg eður ei.  Hinu verður ekki neitað, að þau voru skiljanleg.

 

Eins og alþjóð veit, réðust tveir fullorðnir menn að unga fólkinu með fúkyrðum og stimpingum.   Nú hefur komið í ljós, að annar þeirra er hagfræðingur Seðlabankans, 57 ára að aldri. Þá frétt má sjá hér .  Hafði hann sig sínu meira í frammi en hinn maðurinn og sló beinlínist til konu úr hópi mótmælenda. 

 

Þegar ég sá þessa atburði í sjónvarpi datt mér ekki annað í hug, en að þarna væru á ferðinni helst til skapstórir drykkjumenn, sem tekið hefðu tappann úr  áramótaflöskunni heldur snemma. Þó hefði einnig mátt ætla, að þarna hefðu verið fótboltabullur á ferð, slíkur var atgangur þeirra.  Hverjum gat komið til hugar, að þar færi  hagfræðingur Seðlabankans, sem auk þess mun eiga sæti í Evrópunefnd Sjálfstæðisflokksins?  Það er auðvitað gott að vita, hvern mann maður í slíkri stöðu hefur að geyma.  Þó verður það að teljast nokkuð alvarlegt mál, að stjórnmálaflokkur og það flokkur forsætisráðherra Íslands skuli setja slíkan í þessa stöðu. Þetta er einfaldlega fyrir neðan virðingu Sjálfstæðisflokksins, vona ég.

 

Og nú eru bloggverjar á hægri kanti stjórnmálanna farnir að hvetja til stofnunar hvítliðasveita.  Hvítliðasveitir er alþjóðlegt hugtak yfir ofbeldissinnaða ribbalda hægrimanna.  Hugtakið má rekja til borgarastyrjaldarinnar, sem var í kjölfar Októberbyltingarinnar 1917, en keisaraliðar voru kallaðir hvítliðar. Hvítliðar komu fyrst fram á Íslandi í átökunum um rússneska drenginn árið 1921 og síðar við inngöngu Íslands í NATO árið 1949.  Hugmyndafræði slíkra manna er sú, að lög og regla og þeir sjálfir sé eitt og hið sama.  Því geti þeir farið sínu fram að vild.

 

Stofnun hvítliðasveita yrði vitanlega til þess, að öfgasinnaðir vinstrimenn gripu til samskonar aðgerða.  Þá væri þjóðin komin á barm borgarastirjaldar.  Er það þetta, sem menn vilja?  Varla.  En hættan á því, að allt fari úr böndum eykst með hverjum degi sem líður án þess nokkur sé dreginn til ábyrgðar á þeirri staðreynd, að hin alþjóðlega kreppa leggst þyngra á Íslendinga en nokkra aðra þjóð, vegna þess, að ríkisvaldið lamaði vísvitandi allt eftirlit með fjármálakerfinu.  Það var í skjóli þess, að fjárglæframenn gátu vaðið uppi og hellt skuldasúpunni yfir þjóðina, þegar skýjaborgirnar hrundu.  Og svo kemur Geir Haarde, einn helsti ábyrgðarmaður frjálshyggjunnar fram í sjónvarpi á gamlársdag og segir að sér þyki það leiðinlegt, ef honum hafi orðið eitthvað á!

 

Ætlar maðurinn að færa öfgamönnum land og þjóð á silfurfati?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Katrín Snæhólm Baldursdóttir

Ég tek svo sannarlega undir áhyggjur þínar og lýsi um lei allri ábyrgð á stjórnvöld landsins ef til borgarastyrjaldar kemur. Það ætti öllu hugsandi fólki að vera ljóst að ástandið fer að nálgast suðupunkt og þetta hvitliðatal er hreinlega óhuggulegt sem og framkoma heldri manna sjálfsstæðisflokksins. Hrein hörmung og furðulegt að ekkert hafi heyrst frá yfirmönnum þessara manna. Ég reikna með því að þeim verði báðum sagt upp.

Katrín Snæhólm Baldursdóttir, 4.1.2009 kl. 10:48

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband