1.1.2009 | 12:42
Vanhugsað kryddsíldarstand
Allt frá haustdögum, þegar skýjaborgir hins íslenska pilsfaldakapitalisma hrundu, hefur Austurvöllur verið vettvangur mótmæla alþýðunnar gegn yfirgangi auðmannanna og glæpsamlegu kæruleysi stjórnmálamannanna. Þess vegna er þessi staður tákn sjálfstæðisbaráttu þjóðarinnar gegn innri kúgun.
Í ljósi þessa verður að segjast eins og er, að Stöð 2 gat ekki valið vanhugsaðri stað undir s.k. Kryddsíld, en einmitt Hólte Borg. Þarna var formönnum stjórnmálaflokkanna safnað saman, til að upphefja eina ferðina enn, sitt innihaldslausa gjálfur, eins og léttar bárur sem minnast við fjörusand, eina örskotsstund áður en hafið kallar þær aftur til sín, til eilífrar þagnar.
Öllum mátti ljóst vera, að þarna var Stöð 2 og stjórnmálamennirnir, að ögra því fólki, sem af veikum mætti er að reyna að bjarga því, sem bjargað verður í þessu Guðs volaða landi. Ábyrgðin á því hvernig fór, er því alfarið sök þeirra fyrrnefndu.
Vonandi mun landið rísa á nýju ári. En það mun ekki gerast með kryddsíld milli tannanna á vanhæfum stjórnmálamönnum. Megi þeir fara í friði - og fara langt.
Að svo mæltu óska ég lesendum árs, friðar og Guðs blessunnar. Ekki mun af veita.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Já, við hverju var búist ?
Hildur Helga Sigurðardóttir, 2.1.2009 kl. 01:14
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.