29.12.2008 | 23:00
Vörumst hetjudýrkun
Fyrir örfáum mánuðum stóð stór hluti þjóðarinnar á öndinni yfir því, sem fólkið taldi hetjudáðir s.k. útrásarvíkinga. Þessi hetjudýrkun hafði staðið árum saman. Og það skyldu menn hafa hugfast, að það var í hennar skjóli, sem skuggaleg starfsemi þessara manna þreifst, allt þar til þeir höfðu komið þjóðinni í þá slæmu stöðu, sem hún er nú í.
Í kvöldfréttum Stöðvar 2 nú áðan, var rætt við nokkra bloggara og þeir beðnir um að tilnefna hetjur ársins". Og nú brá svo við, að flestir nefndu til sögunnar þá, sem barist hafa gegn útrásarvíkingunum. Og víst er það fólk, sem nefnt var í þessu sambandi alls góðs maklegt; það hefur unnið þarft verk.
En nú er nóg komið af hetjum". Baráttan gegn auðhyggjunni er barátta fyrir lýðræði. Sú barátta þarfnast almennrar þátttöku, þar sem hver leggur það af mörkum, sem kraftar leyfa. Þetta er einnig barátta fyrir auknum jöfnuði í þjóðfélaginu, ekki aðeins í efnahagslegu tilliti, heldur og menningarlegu og félagslegu. Slík barátta þarf ekki á hetjum að halda; þar skulu menn ganga jafnir til leiks, þótt auðvitað verði sumir fremstir meðal jafningja.
Þegar lýðræðisöfl fara að dýrka hetjur", er hætt við, að þau snúist upp í andhverfu sína. Virðum því og styðjum það sem vel er gert, en dýrkum það ekki.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Eina von þessarar þjóðar er að hreinsa rækilega til í stjórnsýslunni og koma á lýðræði í landinu. Ég kalla á almenning. Við þurfum að koma að fólki við stjórnvölinn sem er tilbúið að deila kjörum með fólkinu í landinu. Fólki sem þekkir daglegt amstur og hefur skilning á því að alþingi á að vera samkoma fulltrúa almennings. Hver einasti fulltrúi á að vera skipaður af þjóðinni en ekki flokksklíku. Ráðuneyti, stofnanir, dómsvaldið og atvinnuvegirnir eiga að þjóna fólkinu en ekki kúga það.
Því þjóðin þarf að byggjast upp af einstaklingum sem nenna að hugsa og eru þátttakendur í mótun samfélagsgerðarinnar og smíði nýrra hugmynda. Samfélagið er okkar vettvangur. Við viljum samfélag sem virðir mannréttindi, jafnrétti og jafnræði. Ríkisstjórnin er búin að rústa fjárhag okkar en stöndum vörð um menningu okkar og frelsi.
Ríkið erum við og ríkið á að vera fyrir okkur.
Látum árið 2009 vera ár samstöðu almennings!Jakobína Ingunn Ólafsdóttir, 30.12.2008 kl. 07:00
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.