28.12.2008 | 22:56
Þjóðfélag – samfélag
Við Íslendingar stærum okkur mjög af því, að vera einstaklingshyggjumenn. Hvað felst í því? Halldór Laxness lýsir þessu hugarástandi nokkuð vel í Sjálfstæðu fólki; umfram allt annað er Bjartur í Sumarhúsum einstaklingshyggjumaður. Hann átti ýmsa sína líka; afkomendur þeirra kallast nú útrásarvíkingar og þykir ekki par fínt.
Einstaklingshyggja Íslendinga er afleiðing þess, að stórbændum og öðrum höfðingjum þessa lands, tóks öldum saman að koma í veg fyrir þéttbýlismyndun í landinu. Svo langt var gengið til að koma í veg fyrir hana, að dönskum kaupmönnum var bönnuð veturseta í landinu. Stórbændurnir vissu sem var, að þéttbýlismyndun mundi gera þeim erfiðara um vik, að fá vinnufólk.
Sennilega hefðu þorp og bæir tekið að rísa í landinu, þegar á ensku öldinni í byrjun 15. aldar, ef atvinnulífið hefði fengið að þróast með eðlilegum hætti. Svo fór ekki. Þess vegna myndaðist ekki sú samvinna fólks, sem þéttbýli skapar, heldur þessi eintrjáningsháttur sveitamennsku í harðbýlu landi, sem almennt kallast einstaklingshyggja. Einnig er þetta fyrirbæri þekkt undir nafninu sjálfstæðisstefna.
Enda þótt þéttbýli hafi tekið að myndast á síðari hluta 18. aldar, þ.e.a.s. í Reykjavík og um miðja 19. öld á Akureyri og enn víðar í lok 19. aldar, gætir enn þess hugsunarháttar, að hver maður sé sem drangur í hafi; fjarri öllum öðrum og engum háður. Á þessari forneskju hefur Sjálfstæðisflokkurinn alla tíð byggt fylgi sitt.
Ein afleiðing þeirrar andlegu sveitamennsku, þjóðar, sem að mestu býr í þéttbýli, er sú, að samfélagsvitund manna er harla lítil. Við miklumst af þjóðerni okkar en forðumst um leið þjóðfélagslegar skyldur okkar. Við látum sjónvarpsstöðvar bjóða okkur endalaust amerískt rusl meðan íslenskri tungu hrakar og allri hugsun einnig. Og við forðumst eins og heitan eldinn, að leggja eitthvað af mörkum til þess samfélags, sem þó er grundvöllur góðs þjóðfélags.
Þjóðfélag og samfélag er ekki það sama. Við erum öll hluti þjóðfélagsins en tilheyrum ólíkum samfélögum, sem þó skarast víða. Þannig er verkalýðshreyfingin eitt samfélag. Hversu almenn er þáttaka okkar í henni? Ekki meiri en svo, að flestir tala um verkalýðshreyfinguna sem forystulið hennar en ekki fólkið sem myndar hana.
Þetta er aðeins eitt dæmi af mörgum. En þótt græðgi og fáviska einstaklingshyggjunnar hafi leitt þjóðina á villigötur botnlausrar græðgi og þótt þjóðin hafi borið furðulega virðingu fyrir þeim, sem drógu hana á asnaeyrunum og rændu hana um leið, þá er samt von. Sú von birtist í stöðumgum mótmælum fólks viku eftir viku og mánuð eftir mánuð. Þessi mótmæli eru í raun bylting, miðað við þann sofandahátt, sem hingað til hefur einkennt íslenskt þjóðfélag.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.