28.12.2008 | 00:01
Kreppuþankar
Í þeirri kreppu, sem alþýða manna má nú þola, dynja á henni ýmis hugtök, lítt skiljanleg venjulegu fólki. Þannig tala sumir hagfræðingar og stjórnmálamenn um tvennskonar kreppu, efnahagskreppu og gjaldeyriskreppu. Hvoru tveggja er rétt að því leyti, að slæmt efnahagsástand og skortur á gjaldeyri eru birtingarform kreppunnar, raunar í bland við atvinnuleysi og niðurskurð hins opinbera á framlagi til heilbrigðismála og annars þess, sem til þjóðþrifa horfir. En það breytir ekki því, að grundvöllur kreppunnar er siðferðislegur. Kreppan er afleyðing botlausrar græðgi síðustu áratuga; græðgi, sem falin var á bak við orðið frjálshyggja". Ég kýs í því sambandi að tala um auðhyggju. Það er nefnilega mikilvægt, að kalla hlutina þeirra réttu nöfnum.
Víkjum aðeins nánar að heiti hlutanna. Þó ýmislegt bjáti á og margt óviturlegt orðið falli í ónefndu húsi við Austurvöll og víðar, þá hefur þrátt fyrir allt, myndast nokkur hópur manna í þessu landi á undanförnum árum, sem fjallar um samfélagsmál í nýju samhengi. Þess er að vísu gætt, að þetta fólk komist ekki nema takmarkað að í fjölmiðlum. Eigi að síður, berast orð þess víða, m.a. á netinu. Hér skuli engin nöfn nefnd í þessu sambandi. Oft eru hér á ferðinni stjórnmálafræðingar, hagfræðingar og heimspekingar, eða væri e.t.v. réttara að segja heimspekisagnfræðingar?
Auðvitað er misjafn sauður í mörgu fé, eins og gengur og gerist. Það skorti ekki hagfræðigráðurnar, unga fólkið á auglýsingadeildum bankanna, sem kallast víst greiningadeildir", á vörum hótfyndinna manna. Ég er ekki að tala um slíkt fólk. Það hefur jafnan þann háttinn á, að svara áður en nokkurs er spurt. Og ill eru þeirra ráð, eins og alþjóð veit.
En á sama tíma og auglýsingadeildir bankanna hlóðu sína loftkastala, þá hina sömu og hrundu í haust er leið, bárust varnaðarorð frá gagnmenntuðum mönnum, sem leituðu svara við spurningum líðandi stundar, áður en þeir slengdu þeim fram í fréttatíma ljósvakamiðlana. Þetta er það fólk, sem verður að leiða þá byltingu hugarfarsins, sem þjóðin verður að ganga í gegnum eigi hún ekki endanlega að glata sjálfsvirðingu sinni. Við skulum nefnilega ekki gleyma því, að skjallið og skrumið lætur jafn illa í eyrum, hvort heldur það berst að hægra eyranu eða því vinstra.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.