17.12.2008 | 22:09
Mótmæli unga fólksins til fyrirmyndar
Það gleður mig, að ungt fólk skuli halda vöku sinni og stillingu um leið, hvað varðar spillinguna á landi hér. Friðsamleg mótmæli þess í Landsbankanum í dag voru til fyrirmyndar. Einnig ber að hæla lögreglunni, fyrir að láta mótmælendurna óáreitta.
Það er ekki undarlegt, að það skuli ganga fram af fólki, að mennirnir sem bera ábyrgð á efnahagslegum hörmungum þjóðarinnar, skuli ráðnir til starfa í ríkisreknum bönkum. Þeir fá heldur betur tíma til að brenna skjölin, sem bent gætu á sekt þeirra.
Þegar Bretar hernámu Ísland þann 10. mai 1940 létu þeir það verða sitt fyrsta verk, að senda herflokk að þýska ræðismannsbúðstaðnum að Túngötu 18 til að handtaka ræðsimanninn, dr. Gerlach, fjölskyldu hans og starfslið. Þeim lá á, til að koma í veg fyrir skjalabruna, sem reyndar var þegar hafinn, er þá bar að garði.
Nú eru liðnar rúmlega 10 vikur frá bankahruninu og enn ganga sukkfurstarnir lausir. Ef við gerumst nú svo bjartsýn, að ímynda okkur, að þeir verði handteknir á morgun, þá samsvarar það því, að Bretar hefðu bankað upp hjá dr. Gerlach upp úr 20. júlí 1940 og spurt hann kurteislega, hvort hann væri nokkuð búinn að brenna öll skjölin.
Afsakið, hvað er að gerast í þessu guðs volaða landi?
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Já þau eru dagleg enda ættu þau að vera það því þegar við eldri erum kominn í gröfina eru þau ennþá að borga
Drullist til að hjálpa þeim núna andskotans aumingjar
Kveðja
Æsir (IP-tala skráð) 17.12.2008 kl. 22:21
Ef við glötum voninni, glötum við einnig menningunni og þar með erum við sokkin niður í foraðið til þeirra sem við erum að mótmæla. Höldum því áfram!
Pjetur Hafstein Lárusson, 18.12.2008 kl. 08:13
Ég tek undir með pistlahöfundinum PHL af fullum hug og sammmála honum varðandi mótmælin og lögreglu.
enda eiga þetta að vera mót"mæli" ekki árás, og lögreglan vann þetta rétt, hinsvegar ef um árás væri að ræða væri lögreglan réttlætanleg.
Gunnar Björn Björnsson, 18.12.2008 kl. 10:14
Loksinns heyrst sanngjörn rödd frá eldri kynslóðinni.
Þjóðin sér ekki að það er verið að berjast fyrir lífi hennar.
Ungir mótmælendur eru dugleg og ég vil hjálpa þeim.
Vona að þín kynslóð vakni til meðvitundar að það þýðir ekki að sitja heima og mótmæla.
Vilhjálmur Árnason, 18.12.2008 kl. 18:24
Já, þetta unga lið kemur mörgum á óvart. Og svo höfðu hinir eldri endalausar áhyggjur af að ekkert yrði út þessu video/DVD glápandi liði sem aldrei hreifði sig eða liti í bók.
Ég skora hér með á "gamla settið" að rífa sig nú frá sjónvarpinu og fylgja afkomendum sínum út á völlinn. Hættið að koma fram eins og barðir hundar og tuða um skrílslæti þegar einhverjir hafa dug til að láta í sér heyra!
Og hananú!
Haraldur Rafn Ingvason, 18.12.2008 kl. 19:50
Ég á bróður sem býr í USA og var að spyrja mig út í þetta. Hverjir hefðu tekið við í Seðlabankanum og Fjármálaeftirlitinu og hvort eitthvað hefði komið út úr nýjum kosningum.
Hann var að meina hvort landið væri ekki svo fámennt að hætta væri á að ættingjar eða vinir fengju djobbið.
Held að hann sé enn að melta það sem ég sagði honum að enn væri sama ríkisstjórnin, sama stjórn á fjármálaeftirlitinu, og í seðlabankanum sæti sama getulausa stjórnin.
Verð að taka fram að bróðir minn hefur búið í USA síðan 1966 og því voða lítið eftir af Íslending í honum.....eða þannig.
Sverrir Einarsson, 20.12.2008 kl. 21:14
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.