Viðtalið við Göran Person

Í kvöld horfði ég á viðtal Boga Ágústssonar í Ríkissjónvarpinu við sænskan bónda, Göran Person, fyrrverandi forsætisráðherra Svía.  Enginn Svíi hefur setið lengur í sæti forsætisráðherra, allar götur frá Tage Erlander, sem lét af störfum í byrjun áttunda áratugarins.  Göran þótti farsæll í starfi.  En sem jafnaðarmaður er hann trúr þeirri hugsjón, að stjórnmálaþáttaka sé þjónusta við fólk en ekki völd yfir því.  Þess vegna er hann bóndi en hvorki seðlabankastjóri eða sendiherra.  En nóg um það.

Það er merkileg tilviljun, að viðtal þetta skuli vera flutt sama daginn og ráðherrar Íslands, flestir hverjir, laumuðust bakdyramegin inn í Ráðherrabústaðinn undir lögregluvernd, vegna þess, að þeir þorðu ekki að horfast í augu við nokkur ungmenni, sem stóðu mótmælavaktina í Tjarnargötunni.

Göran Person kom víða við í viðtalinu við Boga.  En það sem helst vakti athygli mína, var sú fullyrðing hans, að í kreppuástandi væri best, að takast á við stærsta vandann fyrst, en ýta honum ekki á undan sér.  Einnig lagði hann mikla áherslu á markviss viðbrögð stjórnvalda við kreppunni, líkt og raunin var í Svíþjóð í kreppunni á síðasta áratug 20. aldar.

Hversu markviss eru viðbrögðin hér?  Í gær kom forsætisráðherra Íslands fram í fjölmiðlum og tjáði þjóðinni, að tímafrekt væri að sameina Fjármálaeftirlitið og Seðlabankann.  Hvers vegna?  Jú, það hafði sem sagt komið í ljós, að slík sameining krefðist lagabreytingar! 

Heyr á endemi!  Eru það þá tíðindi fyrir forsætisráðherra Íslands, að hér á landi séu allar ríkisstofnanir reknar á lagaforsendum og því þurfi eðlilega lagabreytingar, til að sameina stofnanir?

Göran Person varaði við stjórnarskiptum á krepputímum.  Hann er greinilega vel að sér í málefnum Íslands.  En spurningin er; þekkir hann ráðherrana?

 

Einhverra hluta vegna, rifjaðist þetta ljóð upp fyrir mér, þegar ég horfði á sjónvarpsfréttir í kvöld og sá ráðherrana læðupokast inn í ráðherrabústaðinn undir lögregluvernd.

Tjarnargata

Undir Dauðramannabrekku
reistu þeir hús sín, höfðingjarnir.
Þar ráðskuðust þeir með sálir hinna lifandi
eins og slíkra er siður.
Þeir dauðu í garðinum ofan götunnar
létu sér fátt um finnast,
vitandi sem var
að brátt yrðu höfðingjarnir grafnir meðal þeirra
valdalausir með öllu.
Sömuleiðis héldu endurnar áfram
svamli sínu á Tjörninni
og töldu sig síst búa
á fínni stað en áður.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Lára Hanna Einarsdóttir

Var það ekki frumvarpið um hækkanirnar sem tók ekki nema 85 mínútur að keyra í gegn í síðustu viku?

Lára Hanna Einarsdóttir, 17.12.2008 kl. 15:46

2 Smámynd: Héðinn Björnsson

Mér fannst merkilegast í þessu viðtali hvað það var klárt að ríkisstjórnin er ekki í stakk búin til að taka á nokkru af því sem henni nú er falið af verkum.

Héðinn Björnsson, 17.12.2008 kl. 17:16

3 Smámynd: Árni Gunnarsson

"Ráðherrar eru nú bara fólk," sagði maður nokkur við mig núna á dögunum. Mikið óskaplega er ég glaður að hafa losnað við að umgangast þess konar fólk um mína daga. Ég sé þessi ráðherragrey fyrir mér við að draga fé í réttunum í slagviðri eftir vosbúð í leitum. Hvort þeim gengi eitthvað betur við að draga sér fé er nokkuð sem ég nenni ekki að spá mikið í.

Árni Gunnarsson, 17.12.2008 kl. 21:20

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband