Ríkisstjórnin er að sigla í strand

Stjórnmálamenn í sterkri stöðu tala; stjórnmálamenn í veikri stöðu gaspra.  Ingibjörg Sólrún Gísladóttir formaður Samfylkingarinnar veit, að hún getur ekki skotið sér undan ábyrgð á öllu því klúðri, sem orðið hefur í kerfinu, eftir að kreppan skall á.  Það er að vísu ekki henni að kenna, að opinberar eftirlitsstofnanir með fjármálalífinu virka eins og hver annar lélegur brandari og Seðlabankinn lélegastur þeirra allra.  Sjálfstæðisflokkurinn og Framsóknarflokkurinn drógu tennurnar úr öllu þessu regluverki.  Og það var engin tilviljun; það voru menn úr þessum flokkum, sem fóru ránshendi um bankakerfið, Landsímann, heilbrigðiskerfið og víðar í opinberum rekstri.  Það var því þeirra helsta hagsmunamál, að drepa niður allt opinbert eftirlit.

En þótt Ingibjörg Sólrún hafi, valdaleysis vegna, ekki tekið þátt í þessum skollaleik, þá hvílir ábyrgðin engu að síður á hennar herðum, svo lengi, sem hún heldur Sjálfstæðisflokknum í stjórnarráðinu.  Þetta er henni ljóst og það er með það i huga, sem meta ber orð hennar í Ríkisútvarpinu í morgun.  Ingibjörg Sólrún veit það eins vel og allir aðrir, að ráðherraval Sjálfstæðisflokksins er ekki í hennar verkahring.  Hótanir hennar í garð íhaldsins um stjórnarslit, m.a. ef ekki verði skipt um ráðherra, er því innihaldslaust gaspur.  Sama gildir um þá fullyrðingu hennar, að sjálfgert sé, að stjórnarsamstarfinu ljúki, ef landsfundur Sjálfstæðismanna í janúar n.k. samþykki ekki aðildarviðræður að Evrópubandalaginu.  Þeir Bjarni Benediktsson og Illugi Gunnarsson hafa þegar slegið þau vopn úr hendi hennar.  Auðvitað á ákvörðun um aðild að Evrópubandalaginu að vera tekin af þjóðinni, ekki flokkunum.

Sannleikurinn er sá, að Ingibjörg Sólrún veit sem er, að þessi ríkisstjórn hefur ekkert traust meðal almennings.  Hún er einfaldlega að leita sér að heppilegri fjöru, til að stranda skútunni á, meðan karlinn í brúnni er á frívakt,  svo hún sjálf geti gengið á land þurrum fótum.  Flóknara er málið nú ekki.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Heidi Strand

Heidi Strand, 13.12.2008 kl. 23:28

2 identicon

Hef aldrei haft trú á Ingibjörgu Sólrúnu hún er og hefur alltaf verið eiginhagsmunapotari. Með þessari yfirlýsingu er hún að róa flokksmenn sína. Svo er hún skíthrædd við Davíð því eins og flestir eru að fatta að hann veit eitthvað um hana og Grísavinina hennar 

Guðrún Vestfirðingur (IP-tala skráð) 14.12.2008 kl. 10:02

3 Smámynd: Ingibjörg Hinriksdóttir

Þetta er góð grein hjá þér og sjálfsagt sitt lítið af hvoru rétt í henni. Ég er jafnaðarmaður og styð málstað Samfylkingarinnar. Sá málstaður er hins vegar ekki praktíseraður nú um stundir ... ja nema þá hjá Jóhönnu Sigurðar sem ekki lætur buga sig frá málstaðnum. Ég fagna hverri þeirri hótun sem ISG hendir að Sjálfstæðismönnum en helst vildi ég sjá hana berja í borðið og segja hingað og ekki lengra. Út með stjórn Seðlabankans, út með stjórn FME, út með fjármála- og bankamálaráðherrana og kosningar eins fljótt og unnt er. Svo þarf náttúrulega að frysta eigur útrásarvíkinganna hvar sem unnt er að ná í þær. Ríkið á bankana ... af hverju er ekki hægt að frysta eigur þeirra þar, hvaða áhyggjur eru þetta af Kaupþingi í Lúx? Skoðið bókhaldið, bankinn er í okkar eigu!!!

Ingibjörg Hinriksdóttir, 14.12.2008 kl. 23:55

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband