8.12.2008 | 21:41
Innrásin í Alþingishúsið
Ofbeldi er alltaf af hinu illa. Menn mega bara ekki gleyma því, að birtingarmyndir þess eru margar og mismunandi. Það er ofbeldisverk að ryðjast æpandi og öskrandi inn í Alþingishúsið, eins og þrjátíu ungmenni gerðu í dag. Það er þó ekki aðeins ofbeldisverk gagnvart þingmönnum, heldur fyrst og fremst gagnvart þjóðinni, sem þrátt fyrir allt hefur kosið þá í bestu trú. En það er ekki síður ofbeldisverk, að skella skollaeyrum við þjáningum fólks og ótta, eins og þingmennirnir gera þessa dagana. Úrræðaleysi þeirra og merkingarlaust tal leiðtoga þeirra er ofbeldi gagnvart þjóðinni. Það er þetta ofbeldi, sem leiddi til innrásarinnar í Alþingishúsið í dag. Ofbeldi getur af sér ofbeldi.
Ég óttast ekki kreppuna; kreppur koma og fara, eins og gengur. En ég óttast birtingarmyndir hennar. Þær eru þegar farnar að láta á sér kræla. Fólk er þegar farið að missa atvinnuna, næst fer húsnæðið, menntun barnanna, geðheilsan, o.s.frv., o.s.frv. En það versta er, að valdið, sem orsakaði kreppuna, bæði hér á landi og úti í hinum stóra heimi, þetta vald hefur greinilega það eitt markmið, að standa vörð um sjálft sig. Það er kjarni málsins.
Meðan valdið heldur, að tilvera þess hafi sjálfstætt tilverugildi, sem hafið sé yfir allt, þ.á.m. hag og velferð fólksins, mun hatrið grafa um sig meðal fólksins. Uppþot í Alþingishúsinu gleymist, þegar eldur verður borinn að einhverju öðru valdstákni. Og sá bruni mun víkja úr minni manna, vegna einhvers enn verra, sem á eftir fylgir. Þannig mun samfélagsupplausnin halda áfram, þar til valdastéttin nær áttum, viðurkennir siðferðislegan vanmátt sinn og dregur sig í hlé, svo nýir tímar frelsis og andlegra framfara muni varða veginn til bjartari framtíðar.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Vel mælt.
Davíð Löve., 8.12.2008 kl. 21:49
Erum við þá ekki alveg á réttri leið - það er ekki beint hægt að kalla þetta ofbeldi en fremur aukið áreiti á stjórnvöld sem ekki hlusta og ekki sjá og finna ekki sinn vitjunartíma!
R
Ragnar Eiríksson, 8.12.2008 kl. 22:03
Það er rétt.... Aukið áreiti..
Gunnar Þór Ólafsson, 8.12.2008 kl. 23:22
R. Sammála þér.
En stjórnvölð hér lætur eins og þeir eru hér fyrir eigin þágu en ekki þágu almennings.
Andrés.si, 9.12.2008 kl. 03:22
Eigum við ekki að reyna að gera smá greinarmun á því að láta ófriðsamlega og að beita ofbeldi? Að öskra og æpa er ekki að beita ofbeldi. Ég er stuðningsmaður ófriðsamlegra mótmæla en tel að ofbeldisfull mótmæli séu fljótfær og gegn hagsmunum mótmælanda á þessu stigi baráttunnar.
Héðinn Björnsson, 9.12.2008 kl. 10:31
Ofbeldi á aldrei rétt á sér, en friðsamleg mótmæli eiga það eins og t.d. hættum að verla við B búðirnar sem þetta útrásargengi á
Guðrún Vestfirðingur (IP-tala skráð) 9.12.2008 kl. 17:30
Vel Skrifað Takk
Samfélagsupplausnin mun halda Áfram
Kveðja
Æsir (IP-tala skráð) 9.12.2008 kl. 20:09
Valdastéttin mun ekki viðurkenna siðferðilegan vanmátt sinn og draga sig í hlé.
Sigurður Þór Guðjónsson, 9.12.2008 kl. 21:07
Þarf þá ekki byltingu? Ég meina ekki bara að halda ræður, hrópa, jafnvel ekki bara ráðast inn í Alþingishúsið og stríða löggunni? Ég meina alvörubyltingu. Hví getur hún ekki hafist á Íslandi eins og annars staðar í heiminum? Bylting almennings gegn ofbeldisfullum og hrokafullum stjórnvöldum?
Þorgrímur Gestsson, 10.12.2008 kl. 18:02
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.