27.11.2008 | 13:34
Stofnum stjórnlagaþing
Hvað er lýðræði, hvernig má skjóta undir það styrkum stoðum, hvernig nýtist það fólkinu til heilla og framfara? Allt eru þetta spurningar sem brenna á þjóðinni þessa örlagaríku daga. Aldrei fyrr í sögu Íslands, hefur það gerst, að þúsundir og aftur þúsundir manna mæti til almennra mótmæla gegn ríkjandi ástandi. Og það er ekki kreppan, sem fólkið er að mótmæla, heldur sá siðferðisbrestur gömlu yfirstéttarinnar og nýríkra peningaplottara sem hún hefur afhjúpað.
Hver er krafa fólksins? Réttlæti, réttlæti og aftur réttlæti! Þetta er einföld krafa, en hún krefst flókinnar útfærslu. Það er ekkert einfalt mál, að breyta gervilýðræðisríki þar sem menn vaða uppi í krafti ætternis, flokkshagsmuna, auðhyggju og lýðskrums, í alvöru lýðræðisríki, þar sem ríkja gagnsæir stjórnarhættir með hagsmuni fólksins í fyrirrúmi.
Mótmæli á götum og torgum tryggja ekki lýðræði. En ef valdastéttin er með öllum mjalla, mun henni skiljast, að mótmælin eru rödd fólksins. Þið eruð ekki þjóðin", sagði Ingibjörg Sólrún Gísladóttir formaður Samfylkingarinnar á fundinum í Háskólabíói á mánudaginn var. Og við hlið hennar sat formaður Sjálfstæðisflokksins, Geir Haarde, sem skömmu áður kallaði mótmælendur skríl". Þetta segir þetta fólk, þegar skoðanakannanir sýna, að 70% þjóðarinnar vilja það burt úr stjórnarráðinu! Hvílík ósvífni, já og hvílík himinhrópandi heimska. Það er þjóðin sem mótmælir; skrílinn er í stjórnarráðinu og öðrum hátimbruðum valdastofnunum dauðvona kerfis.
En hvernig á þjóðin að losna við þennan skríl, án þess nýr skríll leysi hann af hólmi? Hvernig á að mynda lýðræðisríki á Íslandi? Til þess þarf stjórnlagaþing. Slíkt þing á að hafa það hlutverk, að semja landinu nýja stjórnarskrá. Stjórnlagaþingið verður að starfa í tveimur deildum, sem bæði fundi hver í sínu lagi og saman. Aðra deildina mætti kalla almannadeild en hina hópadeild. Til almannadeildarinnar yrði kosið af þjóðinni allri, jafnri kosningu, t.d. þannig, að einn fulltrúi yrði á hverja 1000 íbúa. Til a draga úr hættunni á kjöri lýðskrumara, yrði að skipta landinu í kjördæmi, þannig að líkur væri á því, að fólk hefði nokkur kynni af þeim, sem í framboði væru. Til hópadeildarinnar yrði kosið af félagasamtökum, menntastofnunum, landshlutasamtökum o.s.frv. Í þeirri deild væri heppilegt, að u.þ.b. 150 þingmenn ættu sæti.
Almannadeildin ætti að tryggja það, að almenningur gæti komið hugmyndum sínum að. Sértækari hugmyndir kæmu væntanlega frá hópadeildinni. Til að koma í veg fyrir sérhagsmunapot, yrði hópadeildin þó aðeins ráðgefandi. Það er ekki hægt, að raða saman púsluspili, nema maður hafi heildarsýn yfir þá mynd, sem út úr púslinu á að koma. En það er líka gott, þegar hópur vinnur að því, að setja saman púsluspil, þá hafi viss hluti hans yfirgripsmeiri sýn yfir nokkurn hluta myndarinnar en aðrir.
Auðvitað yrðu nefndir að starfa innan stjórnlagaþingsins. Líkt og þingið sjálft ættu þær að starfa fyrir opnum tjöldum. Þær ættu ekki aðeins að hafa rétt á, að kalla hvern sem er til skrafs og ráðagerða, heldur skyldi öllum heimilit, að koma boðskap sínum til nefndarinnar, hvort heldur væri skriflega eða munnlega.
Vonandi þarf ekki að taka það fram, að meina verður stjórnmálamönnum, að bjóða sig fram til stjórnlagaþingsins. Þeirra nærvera yrði einungis vörn fyrir það feyskna og fúna kerfi, sem þjóðinni er ljóst, að hún verður að losna undan.
Stjórnlagaþingið verður að starfa svo lengi, sem þörf krefur. Ekki er ólíklegt, að það þurfi eitt til tvö ár, til að komast að niðurstöðu. Þá niðurstöðu skal svo leggja fyrir þjóðina; hennar skal vera síðasta orðið í þessum efnum.
Á meðan stjórnlagaþingið situr að störfum skal alþingi sinna löggjafarstörfum, eins og hingað til. Vitanlega verður svo að efna til þingkosninga þegar ný stjórnarskrá hefur verið samþykkt í þjóðaratkvæðagreiðslu.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Held að það yrði ekki til bóta vegna þess að hún yrði of flókin og mannréttindi yrðu fótumtroðin af fólki sem veit allt betur en aðrir en hefur ekkert umburðarlyndi.
Einar Þór Strand, 27.11.2008 kl. 20:47
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.