Ræða Þorvaldar Gylfasonar - stofnum lýðræðisríki

Ræða Þorvaldar Gylfasonar á borgarafundinum í Háskólabíói s.l. mánudag, var bæði markviss og rökföst.  Óþarft að fjalla nánar um það.  En það var eitt orð, sem hann notaði, sem alltaf skelfir mig.  Þetta er orðið stjórnmálastéttin".

Þorvaldur er ekki fyrstur manna til að taka sér þetta orð í munn.  Aftur og aftur hefur það skotið upp kollinum í umræðum undanfarinna ára.  En í þessari ræðu sinni setti hann þetta skelfilega orð í rökrétt samhengi.  Og kynni nú einhver að spyrja; hvað er stjórnmálastétt?

Þeirri spurningu verður ekki svarað án nokkurs aðdragenda.  Í einveldisríkjum konunga og annarra fursta fyrri tíma, var þetta ljóst; stjórnmálastéttin var samheiti yfir konung, erfðaraðal og embættisaðal.  Flóknara var það nú ekki.  Við Íslendingar erfðum þetta kerfi því miður frá liðnum öldum.  Þegar lýðræðisöflin sóttu í sig veðrið í Danmörku á 19. öldinni, hélst hér á landi enn hið gamla, ættbundna valdakerfi, sem rekja má alla leið aftur í Gamla sáttmála.  Í Gamla sáttmála er það beinlínist tekið fram, að lögmenn og sýslumenn skuli vera af ættum gömlu goðanna.  Aðalsveldið varð því grunnur stjórnmálanna á Íslandi um aldir, þótt engir væru greifarnir eða hertogarnir; það var einfaldlega engin þörf fyrir titlana, ættfræðiþekking landans sá fyrir því.

Þegar miðstjórnarvaldið tók að flytjast inn í landið, hafnaði valdið vitanlega í höndum þeirra, sem höfðu menntun til þess, að fara með það.  Úr hvaða þrepum þjóðfélagsstigans, skyldu þeir menn hafa komið? 

Og árin liðu.  Þjófélagið varð flóknara að allri gerð, menntun jókst, stjórnmálaþátttaka varð almennari.  Verkalýðshreyingin og samvinnuhreyfingin sáu m.a. fyrir því.  En bindiefni gömlu valdastéttarinnar var harla sterkt og hefðir hennar breiddust út.  Það tók að þykja eðlilegt á ólíklegustu stöðum, að sonur tæki við af föður, eða að minnsta kosti, að náin tengsl ættar- og vináttubanda tryggðu mönnum frama.  Og ekki má gleyma hagsmunasamböndunum.  Lýðræðið var sem sagt harla ófullburða.  Þess gjöldum við nú.

Kvótakerfið hefði aldrei orðið til í lýðræðissamfélagi.  Einkavinavæðing bankanna hefði aldrei átt sér stað í lýðræðissamfélagi.  Fákeppni í matvælasölu eins og líðst hér á landi, væri útilokuð í lýðræðisríki.

Það er útilokað í lýðræðisríkjum, að í raun sé ekkert eftirlit með fjármálastofnunum, hverrar gerðar sem þær eru. 

Það gæti aldrei liðist í lýðræðisríki, að þjóðhöfðingi gerðist senditík ræningalýðs, eins og gerst hefur hér á landi síðustu árin.

Er ég að halda því fram, að Ísland sé ekki lýðræðisríki?  Já, ég fullyrði, að svo sé ekki!  Á Íslandi ríkir fámennisveldi, sem gulltryggt er með veiku löggjafarvaldi, veiku eftirlistsvaldi, veikburða fjölmiðlum o.s.frv, o.s.frv.

Hér þarf að halda áfram þeirri þróun, sem hófst með stjórnarskránni 1874 og hélt áfram með heimsatjórninni 1904 og enn með fullveldinu 1918.  Hér á Íslandi þarf að stofna lýðræðisríki!


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ásgeir Kristinn Lárusson

Það hefur ætíð verið tekið hart á snærisspottaþjófum í þessu landi - og það kemur ekki til með að breytast...

Ásgeir Kristinn Lárusson, 26.11.2008 kl. 09:52

2 Smámynd: Jens Ruminy

Það þyrfti einmitt stjórnarskrárbreytingar. Uppbygging hennar hefur varla breyst frá setningu hennar, Kónugurinn orðinn að forseta en valdahlutföll nánast óbreytt.

Þingið á að kjósa forsætisráðherra og má kjósa nýjan ef og þegar meirihluti fæst. Vantraustsyfirlýsing er ekki nóg, hvað gera menn þegar búið er að lýsa yfir vantrausti en menn koma sér ekki saman um nýja stjórn?
Svo væri Ísland tilvalið að taka upp svissneskan síð að öll lög má fella með þjóðaratkvæðagreiðslu innan ákveðins tíma frá lagasetningu og menn út í bæ mega koma með lagafrumvörp til þjóðaatkvæðagreiðslu ef nægilega margar undirskriftir safnast saman. Þetta mun veikja valdastéttina til muna og færa hana nær þjóðinni.

En til þess að svo verði þarf núsitjanda þingið að setja lög um slíkar stjórnarskrárbreytingar og boða svo til kosninga.

Jens Ruminy, 26.11.2008 kl. 11:30

3 identicon

Það sem mér fannst óhugnalegast eftir ræðu Þorvaldar, var hvernig hann horfði yfir lýðinn þegar ræðan var búin og baðaði sig í sviðsljósinu.  Hann mynnti mig á upptökur af Mussolini og Hitler, þegar þeir voru að komast til valda við svipaðar aðstæður.  Ég fékk það á tilfinninguna að hann væri næstur að ganga í hina svokölluðu "stjórnmálastétt".  Ræðan hjá honum var ágæt, þó að ljóst væri að hér færi öfga vinstri maður.

Ingvar (IP-tala skráð) 26.11.2008 kl. 12:37

4 Smámynd: Jóhann G. Frímann

Áhugaverð pæling Pjetur sem mig langar að lesa betur. Skrítið hvað fáir kveikja á Þorvaldi Gylfasyni. Þetta er bróðir Vilmundar heitis og sonur eðalkratans Gylfa Þ. Mjög klár maður og ég vil fá hann í stjórnmálin. Hann er svolítið sérkennilegur í töktum, svipbrigðum og munnhreyfingum en mér finnst það hlægilegt nánast að Ingvar sjái fyrir sér Mussolini og Hitler og að tala um öfga vinstri mann. En þetta er þín tilfinnning Ingvar sem þú hefur fullan rétt á að hafa.

Jóhann G. Frímann, 26.11.2008 kl. 18:21

5 Smámynd: Brynjar Jóhannsson

 Þakka þér kærlega fyrir þessa fræðslu Pétur. Mér var ekki kunnugt að stjórnmálastéttinn væri heiti yfir forna konungsvaldið.

Eftir að ég fór að gefa Þorvaldi gaum varð mér ljóst að þar er mikill fræðimaður sem temur sér ekki að fara með fleipur og halda sig fyrst og fremst við staðreyndir. Ég ber ómælda virðingu fyrir þessum manni og myndi helst vilja fá hann í Seðlabankann í stað Davíðs. 

Ingvar Bíddu nú við !!!!!!

Er þorvaldur öfgavinnstri maður ?  Hvernig færðu að út ? fyrir mér er þessi maður fyrst og fremst rökfastur hugsuður og fæ ekki hvernig þú getur fengið þetta út. 

Brynjar Jóhannsson, 27.11.2008 kl. 03:15

6 Smámynd: nicejerk

Góður pistill.

Ég er algerlega sammála. Jens í athugasemd #3 bætir vel við.

nicejerk, 27.11.2008 kl. 07:46

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband