Hvenær læra stjórnmálamenn að hlusta?

Því miður komst ég ekki á borgarafundinn í Háskólabíói í kvöld.  En ég var rétt í þessu að horfa á hluta hans á netinu.  Margrét Pétursdóttir verkakona talaði þar af þeim skörungsskap og þeirri festu, sem ég hef lengi saknað í stjórnmálaumræðu hér á landi.  Hún hafði það sér til ágætis, að tala beint frá hjartanu, en ekki eins og fínpússuðu pempíurnar, sem skólakerfið virðist hafa þjálfað til þess eins, að segja ekki neitt og tala þó.  En Margrét; gættu þín, nú koma stjórnmálaflokkarnir til með að smjaðra fyrir þér eins og fyrir Aðalheiði Bjarnfreðsdóttur forðum, eftir hennar frægu ræðu á Kvennaverkfallsdaginn. 

Efnislega sagði Ingibjörg Sólrún eitthvað á þessa leið: „Hér talar enginn fyrir þjóðina, bara fyrir sjálfan sig."  Já, þetta sagði formaður flokks, sem á tyllidögum kennir sig við jafnaðarstefnu, frammi fyrir troðfullu Háskólabíói, eftir að þúsundir og aftur þúsundir hafa mótmælt gerðum hennar og hennar nóta og aðgerðarleysi þeirra sömuleiðis.  Því miður óttast ég, að þarna hafi hún mælt fyrir munn allra hinna íbúanna í fílabeinsturni íslenskra atvinnustjórnmála.  Hvað þarf stór hluti þjóðarinnar að hrópa þetta fólk burt af vettvangi stjórnmálanna, til að það skilji, að það eru ekki einstaklingar, sem reyna að koma fyrir það vitinu, heldur þjóðin öll?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband