Dauðastríð maddömu Framsóknar

Því verður tæpast haldið fram um Guðna Ágústsson, að hann skilji eftir sig langan lista stórbrotinna afreka á hálum ís stjórnmálanna.  Leikaraskapurinn er honum svo í blóð borinn, að ekki var alltaf auðvelt að gera sér ljóst hvort hann fór með gamanmál eða talaði í alvöru.  Hann tók við varaformennsku í Framsóknarflokknum, þegar óprúttin hagsmunaöfl voru þar alls ráðandi og formannstíð hans varð of skömm, til þess að hann næði almennilega áttum í þeirri stöðu.

Ekki veit ég, hvað réð þeirri ákvörðun Guðna, að segja af sér formennsku í Framsóknarflokknum og ganga um leið út af alþingi.  Það er hans mál og flokksfélaga hans.  Hitt vita allir, að hjaðningavíg eru jafnan hlutskipti deyjandi stjórnmálaflokka.  Má í því sambandi minnast Samtaka frjálslyndra og vinstrimanna og síðar Alþýðubandalagsins.

En það er ekki aðeins Framsóknarflokkurinn, sem brátt mun renna skeið sitt á enda; sömu örlög bíða þess flokkakerfis, sem þjóðin nú má þola, eins og það leggur sig.  Það vantar t.d. ekki spjótalögin innan Sjálfstæðisflokksins.  Skeytin ganga ótt og títt úr Svörtuloftum.  Og þótt ekki standi slíkir kappar undir Arnarhóli, að þeir séu líklegir til að grípa spjótin á lofti og senda þau til baka, þá brýna þeir væntanlega kuta sína, eins og Brútus og félagar forðum tíð á Tíberbökkum.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Salvör  Kristjana Gissurardóttir

Sumir halda því fram að vænlegra sé að breyta gömlu flokkunum innanfrá en að umbylta öllu.  Það eru verðmæti í flokkakerfinu sem eru ef til vill ekki sýnileg núna - ef hreinsað er vel til í þeim og flokkarnir verða aftur lýðræðislegar hreyfingar sem byggjast á hugsjónum og grasrótarstarfi þá er alveg eins gott að endurreisa flokkana og að stofna nýja.

Ítalía er oft tekið sem dæmi um það sem umbylting borgaði sig ekki. 

Salvör Kristjana Gissurardóttir, 19.11.2008 kl. 11:17

2 Smámynd: Ævar Rafn Kjartansson

Fólk ekki flokkar er dagsskipunin. Og þessir flokkar eru liðnir undir lok.

Ævar Rafn Kjartansson, 20.11.2008 kl. 00:02

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband