12.11.2008 | 12:12
Hugsa fyrst - tala svo, forseti
Ég er Íslendingur. Þetta kann að þykja óþörf yfirlýsing, en eins og ástandið er í landinu, er hún það ekki. Ég lít nefnilega ekki einungis á þjóðerni manna, sem landfræðilega staðreynd. Því fylgja og skyldur, rétt eins og það leggur mönnum kvaðir á herðar, að vera menn. Sem Íslendingi ber mér af fremsta megni, að auka veg og virðingu lands og þjóðar. Það hygg ég að flestir geri, fleiri þó ómeðvitað en meðvitað. Fólk gerir þetta einfaldlega með daglegri breytni sinni. Ég býst við, að ýmsir verkamenn, kennarar, kaupmenn og bændur, svo nokkur dæmi séu tekin, yrðu furðu slegnir, ef ég segði þeim, að þeir væru þjóð sinni til sóma. En ég þekki marga slíka. Þetta eru heiðursmenn og hefðarkonur í bestu merkingu þeirra orða. Sumt af þessu fólki er ekkert að luma á skoðunum sínum, það er völlur á því, aðrir fara með veggjum, eins og gengur og gerist. Þannig er lífið.
En lífið á sér aðrar hliðar. Til er fólk, sem ekki er þjóð sinni til sóma, heldur skammar. Þó hreykir það sér jafnan hátt. Það þykist standa lýðum ofar. Og þótt það hljómi þversagnarkennt, þá bera margir virðingu fyrir slíku fólki. Það kallast á mannamáli lítilmennska.
Lítilmennska er þeirrar náttúru, að hún eykst í réttu hlutfalli við þær hæðir, sem einstök lítilmenni ná í krafti lítilmennsku fjöldans. Og því miður, mín elskulega þjóð; undanfarna áratugi hefur þú í vaxandi mæli, látið glepjast af fánýtum gildum auðs og valda. Því sýpur þú nú seyðið af.
Víst fer nú kreppa vítt um lönd. En hvergi er hún meiri en hér. Og það sem verra er; á Íslandi er efnahagskreppan hreinir smámunir miðað við siðferðiskreppuna. Hér ganga milljarðaþjófar lausir; og ekki bara það, þeir eru enn á fullu í viðskiptum. Stjórnherrarnir standa eins og aular á hliðarlínunni og horfa á leikinn, en aðhafast ekkert. Það er ekki einu sinni dómari á vellinum og línuverðirnir komast ekki að fyrir aulunum á hliðarlínunni.
Fyrst þegar kreppan skall á, fór forseti lýðveldisins með veggjum. Var það að vonum, enda voru það sérstakir vildarvinir hans, sem farið höfðu ránshendi um lönd og álfur. Og ekki nóg með það; hann studdi þá með ráðum og dáð. Hann ferðaðist um í einkaþotum þeirra, hélt þeim veislur á kostnað þjóðarinnar og mærði þá í ræðu og riti. Hann var presturinn í predikunarstólnum, þar sem lýðurinn steig sinn tryllta dans kringum gullkálfinn. Og lofgjörð hans til kálfsins hljómaði víða. Bergmálið er ekki þagnað enn.
En Adam var ekki lengi í Paradís. Nú hefur norska dagblaðið Klassekampen upplýst, að á föstudaginn var, sat forseti Íslands veislu með sendiherrum erlendra ríkja í danska sendiráðinu í Reykjavík. Og sá lét nú móðan mása! Hann hellti sér yfri frændur okkar Dani og Svía, að nú ekki sé talað um Breta, sem gerast svo djarfir, að krefjast þess, að íslenskir bankar, sem ráku útibú í þeirra landi, greiði skuldir sínar. Og ekki bara það, heldur bauð hann Rússum afnot af Keflavíkurflugvelli. Skrifstofa forsetaembættisins vísar því að vísu á bug, að hann hafi gengið svo langt. En greinin í Klassekampen styðst við minnismiða frá norskum diplómat. Og svo ráða menn hvorum þeir trúa. Ég fyrir mitt leyti efast ekki.
Það var aldrei í verkahring forseta Íslands, að gerast vikapiltur auðfurstanna og það er heldur ekki hans hlutverk, að móta utanríkisstefnu þjóðarinnar. Úr því sem komið er, hefur hann aðeins einu hlutverki að gegna - hlutverki fyrrverandi forseta Íslands.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Já Pjetur hann dansaði sannarlega með þeim drakk kampavínið á milli landa í einkaþotum en nú er kampavínið búið og satt að segja hélt ég að hann hefði horfið af yfirborði jarðar. En svo kom að því að hann opnaði munninn og finnst mér það í raun allt í lagi því eins og þú veist skilgreindu Bretar okkur hryðjuverkamenn. En hann hefði getað beint orðum sínum beint að Bretum ekki hinum þjóðunum. Hver vill hjálpa þjóð sem gerir ekkert til að sanna sekt á þá sem hreinlega stálu sparifé landsmanna. Tökum þá og rannsökum jafnvel að setja þá í gæsluvarðhald meðan á rannsókn stendur. Það hefur verið gert af minna tilefni
Guðrún (IP-tala skráð) 12.11.2008 kl. 12:42
Þetta er hneyksli.
Frekar að sleppa því að bjóða til veislu en að nota tækifærið til að halda yfir gestunum skammarræðu. Dónaskapur af verstu sort.
Greta Björg Úlfsdóttir, 12.11.2008 kl. 13:05
Óli Grís. Bónusgrís. Forseti eður ei.
Greta Björg Úlfsdóttir, 12.11.2008 kl. 13:07
Nú, - eitthvað misskildi ég staðsetninguna, þetta var víst í veislu á danskri grund. Breytir því ekki að maður sem ekki er í betra jafnvægi en þetta ætti ekki að mæta í veislu sem fulltrúi þjóðarinnar - það þýðir ekkert að fara í fýlu þó hinir strákarnir dáist ekki að honum og jafnvel tali um eitthvað sem honum þykir óþægilegt.
Greta Björg Úlfsdóttir, 12.11.2008 kl. 14:07
Þvílíkt endemis bull er þetta sem þú skrifar. Minni á að um svipað leiti og hrunið á sér stað, var forsetinn í aðgerð. Ekki trúi ég því að fólk ætlist til að hann hafi þá átt að æða út og suður. Forsetinn leyfði sér að endurspegla það sem fólkið í landinu segir, það er allt og sumt. "Skýrslan" sem þessi norski diplomat gefur blöðum í Noregi, er einhv.konar hraðskrift á tveggja klukkustundar fundi á milli margra einstaklinga frá mörgum löndum, sem blöðin suðu niður í þessa frétt, og smá partur af því sem sagður var á þessum fundi soðinn niður í eins neikvæða frétt og hægt er, en það er háttur fjölmiðlanna til að selja blöðin. Það ætti heldur að beina furðunni að forsætisráðherranum sem bara brosir og segir fólki að vera góðu við hvort annað af því að hann veit ekki sitt rjúkandi ráð og er fyrst og frems að passa atkvæðin sín, sem eru þá sennilega a.m.k. eitt, þ.e.a.s. þitt
Jónína (IP-tala skráð) 12.11.2008 kl. 20:35
Jæja, ég er þó að minnsta kosti komin með á hreint hvar og hvenær þessi fundur var eftir að horfa á viðtalið við forsetann í Kastljósi kvöldins.
Þar endurtók Ólafur Ragnar Grímsson alla gömlu frasana sína í örlítið breyttri útgáfu. Bla, bla, bla, bla, þangað til maður farinn að dotta af leiðindum.
Ekki þar fyrir að fréttin af fundinum ber allan keim af sensajónblaðamennsku, ég efa það ekki, en ekki rýkur nema brenni, eða hvað?
Voða verður gott að fá annan forseta næst.
Greta Björg Úlfsdóttir, 12.11.2008 kl. 21:12
Lítilmenninn finnast nú víða skal ég segja þér.
Hvað er það annað en lítilmennska og þjónkun hjá utanríkisráðherra þessa lands að segja nú að hún láti Bretum það eftir hvort þeir komi, eða komi ekki í þetta fáránlega "loftrýmiseftirlit" .
Var það líka ekki hún sem gekk allra manna lengst í þjónkunn sinni við bankann þegar hún barði sér á brjóst og sagði að hún og Ríkisstjórnin myndu verja bankanna fram í rauðan dauðann !
Var það ekki líka hún og viðskiptaráðherrann sem ferðuðumst um allan heiminn í allt sumar á SAGA CLASS og í einkaþotum elítunnar, til þess að mæta á fundi í útlöndum með Íslensku Bankastjórunum til þess að bulla og ljúga til um hvað þetta væri allt saman pottþéttir gæjar og hvað bankarnir væru nú sterkir og efnahagslífið á Íslandi allt saman frábært, bla, bla bla !
Skömmu seinna hrundi allt kerfið.
Nú hafa þessi lítilmenni ekkert fram að færa og engar tillögur til bjargar má ræða nema þeirra, það er að svíkja þjóð sína undir ESB.
Þvílíkir lýðskrumarar !
Þetta er landráðahyski og ég stend við það !
Gunnlaugur Ingvarsson (IP-tala skráð) 13.11.2008 kl. 10:41
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.