7.11.2008 | 09:57
Harður vetur framundan...
Atvinnuleysi er þegar skollið á meðal Íslendinga, þrátt fyrir þá staðreynd, að versnandi þjóðarhagur hafi fyrst bitnað á erlendu starfsfólki, sem nú er óðum að yfirgefa landið. Víst kemur fólk til með að fá atvinnuleysisbætur, en þær duga skammt. Og fjárhagurinn er ekki eina skuggahlið atvinnuleysis. Hættan er sú að fólk missi kraftinn og kjarkinn. Einnig er hætta á að drykkjuskapur og eiturleyjaneysla aukist.
Atvinnuleysi er ekki aðeins fjárhagshagslegt heldur einnig félagslegt og andlegt áfall. Því er mjög aðkallandi að þegar í stað sé gripið víðtækari úrræða en atvinnuleysisbóta einna. Í atvinnuleysinu um 1990 hélt Verkamannafélagið Dagsbrún uppi daglegri starfsemi, fyrir þá félagsmenn sem það vildu. Reynslan var sú, að þeir sem tóku þátt í því starfi, fóru mun betur út úr atvinnuleysinu en hinir sem gerðu það ekki. Sé litið lengra aftur á spjöld sögunnar, má minna á atvinnubótavinnuna á fjórða áratugnum. Margir hafa farið háðulegum orðum um hana, en þeir sem nutu hennar gerðu það ekki. Það þarf að gefa því kost á vinnu, hver svo sem hún er. Fjöldamörg störf má skapa, s.s. varðandi umhyggju aldraðra, félagsstörf o.s.frv. Ýmis útivinna væri t.d. mörgum holl. Ég er ekki endilega að tala um fulla vinnu. Ég er bara að tala um, að gefa fólki kost á, að hafa eitthvað fyrir stafni. Langvarandi aðgerðarleysi skerðir sjálfsvirðinguna.
Á undanförnum árum hefur fullorðinsfræðsla aukist mjög. Hana mætti stórefla, t.d. á sviði lista og hannyrða. Ég er ekki að segja, að útkoman yrði snillingur í hverri sýslu, þótt ég sé raunar sannfærður um, að víða mundi frábær sköpunarkraftur leysast úr læðingi. En menn mundu þá alla vega hafa annað og þarfara við tímann að gera, en að stúdera á sér tærnar.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Alveg 100% sammála, það er hægt að koma allskonar verkefnum í gang.
Jón Gunnar Bjarkan, 7.11.2008 kl. 15:58
Góður pistill hjá þér Pjetur
Júlíus Valsson, 8.11.2008 kl. 01:40
Frábær pistill
Heiður Helgadóttir, 9.11.2008 kl. 08:58
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.