Á að banna prófkjör?

Yfirstandandi efnahagskreppa er ekki sérstæð; hún er aðeins efnahagsleg birtingarmynd þeirrar víðtæku siðferðislegu kreppu, sem undanfarna áratugi hefur þjakað þjóðina.  Og látum nú vera í bili, að bera okkur saman við aðrar þjóðir.

Óvíða hefur siðferðiskreppan verið verri en í stjórnmálalífinu.  Í tæplega fjóra áratugi hefur það verið lenska, að velja fólk á framboðslista flokkanna með prófkjörum.  Þetta leit vel út í fyrstu.  Menn töldu að lýðræðið mundi eflast, þar eð þeir, sem fyrir væri á fleti, yrðu nú að etja kapps við unga og framsækna stjórnmálamenn í prófkjöri, sem allir gætu tekið þátt í.  En þeim yfirsást tvennt; annars vegar það, að prófkjör skapar þá hættu, að reynslulaust fólk komist í örugg framboðssæti, út á það eitt, að vera s.k. „þekkt andlit", t.d. úr sjónvarpi, og hins vegar það, að prófkjör kostar peninga.

Nú höfum við fjöldamörg dæmi um þingmenn og sveitarstjórnarfulltrúa, sem betur hefðu látið staldra við þá iðju að sýna andlit sitt í sjónvarpi, en að svala metnaði sínum í stjórnmálum.  Og því miður er ég viss um, að við gjöldum nú einnig fyrir það, að prófkjör eru dýr.  Enginn kemst t.d. inn á Alþingi eða í borgarstjórn, nema hann geti lagt fram milljónir króna.  Sjálfsagt geta menn snapað nokkrar krónur hjá vinum og vandamönnum.  En það dugir skammt.  Þá er leitað til fyrirtækja.  Og dettur einhverjum það í alvöru í hug, að þau borgi einhvern inn á þing, án þess að fá það endurgoldið?  Og hvert skyldi gjaldið vera?  Þarf mjög hugmyndaríka menn til að ímynda sér, að gjaldið sé atkvæði og pólitísk fyrirgreiðsla?  Ég held ekki.

Hvað er til ráða?  Það er aðeins um eitt að ræða; það verður að banna prófkjör.  Það verður að raða niður á framboðslista af kjörnefndum, sem flokksmenn viðkomandi flokka kjósa í lýðræðislegum kosningum.  Svo geta kjörnefndirnar ýmist lagt fram endanlegan lista eða hugmyndir, sem flokksmenn greiða atkvæði um.  Bæði mundi þetta ýta undir aukna stéttarlega fjölbreytni á framboðslistum og auk þess draga stórlega úr hættunni á því, að atkvæði gangi kaupum og sölum.

Íslenska þjóðin verður að fara horfast í augu við þá staðreynd, að hún býr við gjörspillt stjórnmálakerfi.  Annars er henni ekki við bjargandi.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: María Kristjánsdóttir

Sammála.

María Kristjánsdóttir, 29.10.2008 kl. 00:03

2 identicon

"Íslenska þjóðin verður að fara horfast í augu við þá staðreynd, að hún býr við gjörspillt stjórnmálakerfi.  Annars er henni ekki við bjargandi."

Sönn orð, töluð í tíma.

Hallgrímur Óskarsson (IP-tala skráð) 29.10.2008 kl. 12:46

3 Smámynd: Júlíus Valsson

Fulltrúalýðræðið er stundum ákaflega seinlegt og ófulkomið stjórnarform. Með aukinni tækni er hægt að auka vægi borgarans í allri ákvörðunartöku. Það kallar aftur á aukna fræðslu til og ábyrgð hins almenna borgara. 

Júlíus Valsson, 29.10.2008 kl. 17:57

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband